Áfram gengur ekki sem skildi hjá þýska meistaraliðinu SC Magdeburg í Meistaradeild Evrópu í handknattleik. Liðið er aðeins með þrjú stig að loknum fimm umferðum, er í sjötta sæti af átta liðum í B-riðli. Í kvöld tapaði Magdeburg fyrir Nantes á heimavelli með fjögurra marka mun 32:28, eftir að hafa verið marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:15.
Nantes er á hinn bóginn í fínni stöðu og situr í öðru sæti með sex stig eins og Aalborg Håndbold og Pick Szeged sem mættust í kvöld á Álaborg. Aalborg hafði betur, 29:28. Janus Daði Smárason var ekki með ungverska liðinu að þessu sinni.
Ómar Ingi markahæstur
Ómar Ingi Magnússon var markahæstur hjá SC Magdeburg í tapleiknum á heimavelli fyrir Nantes. Selfyssingurinn skoraði sjö mörk og gaf þrjár stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk og gaf fimm stoðsendingar.
Ayneric Minne var atkvæðamestur leikmanna Nantes með níu mörk. Franska liðið lék afar góða vörn í Magdeburg í kvöld.
Einir ósigraðir
Evrópumeistarar Barcelona eru eina liðið í Meistaradeildinni sem enn hefur ekki tapað stigi. Barcelona lagði RK Zagreb, 31:29, í króatísku höfuðborginni í kvöld. Dika Mem skoraði sex mörk og ungstirnið Petar Cikusa var næstur með fimm mörk. Filip Glaves átta stórleik fyrir Zagreb og skoraði m.a. níu mörk.

Fimm leikir verða í Meistaradeildinni annað kvöld, fjórir í A-riðli og einn í B-riðli.
Staðan í B-riðli eftir leiki kvöldsins: