Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði fjögur mörk þegar nýliðar Amo Handboll unnu sinn þriðja leik í kvöld í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik á heimavelli, í Alstermo. Amo lagði HK Aranäs, 33:27, eftir að hafa verið átta mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik.
Amo er efst í deildinni ásamt Hammarby og Sävehof sem einnig hafa unnið mótherja sína fram til þessa í deildinni. Sävehof vann Önnereds í nokkrum hitaleik í Gautaborg, 36:23. Tryggvi Þórisson var ekki leikmannahópi Sävehof að þessu sinni.
Segersång av publik och spelare efter Aranäs besegrats med 33-27 (19-11)!#viäralstermoare #amo #alstermo #amohandboll #handbollsligan #handboll #håndbold #håndball #handball pic.twitter.com/9oGFmTMVht
— Amo Handboll (@amo_handboll) September 28, 2023
Gaman í Karlskrona
Hinn nýliðinn í sænsku úrvalsdeildinni, HK Karlskrona, vann í fyrsta sinn í úrvalsdeildinni í kvöld. Karlskrona lagði Hallby, 30:25, eftir að hafa verið sjö mörkum yfir í hálfleik, 17:10.
Samkvæmt frásögnum á X, áður Twitter, fór Phil Döhler hamförum í marki HF Karlskrona, ekki síst í fyrri hálfleik. Því miður virðist skráningum á vörðum skotum vera mjög ábótavant á síðu sænsku úrvalsdeildarinnar. Döhler er aðeins sagður hafa skorað eitt mark í kvöld.
Þorgils með á ný – Ólafur meiddur
Þorgils Jón Svölu Baldursson sneri til baka eftir meiðsli og stóð í ströngu en skoraði ekki mark. Ekkert fremur en Dagur Sverrir Kristjánsson.
Ólafur Andrés Guðmundsson lék ekki með að þessu sinni vegna meiðsla sem hann kenndi sér í leik á laugardaginn. Hampus Dahlgren átti stórleik fyrir Karlskronaliðið, skoraði 9 mörk í 10 skotum. Hann kom til félagsins á dögunum.
Stöðuna í sænsku úrvalsdeildinni og fleiri deildum í evrópskum handknattleik er hægt að sjá á síðunni, staðan víða í Evrópu, kynnast má með því að smella hér.