Íslendingarnir þrír í herbúðum danska handknattleiksliðsins Ribe-Esbjerg, Daníel Þór Ingason, Gunnar Steinn Jónsson og Rúnar Kárason eru ásamt samherjum komnir í frí frá æfingum fram yfir næstu helgi eftir að einn félagi þeirra greindist smitaður af kórónuveirunni í gærmorgun, mánudag. Sennilegt er talið að hann hafi smitast af leikmönnum bandaríska landsliðsins sem Ribe-Esbjerg lék æfingaleik við á föstudaginn.
Eftir að leikmaður Ribe-Esbjerg greindist smitaður í gær og upp kom hópsmit í herbúðum bandaríska landsliðsins í gærkvöld voru allir leikmenn Ribe-Esbjerg boðaðir í skimun í dag. Þeir verða að sæta sóttkví þar til niðurstaða liggur fyrir á morgun, að sögn Rúnars. Hinn smitaði æfði ekki með liðinu í gær þar sem hann hafði fundið til einkenna strax á sunnudagskvöld.
Hver sem niðurstaðan verður hjá leikmönnum Ribe-Esbjerg í dag þá verður næsta æfing ekki fyrr en eftir komandi helgi.