- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þrjú af fjórum liðum Íslendinga standa vel að vígi

Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk í öruggum sigri Gummersbach í dag. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Fyrir utan Val léku fjögur félagslið sem tengjast íslenskum handknattleiksmönnum í forkeppni Evrópudeildar karla í handknattleik í dag. Þrjú þeirra, Bjerringbro/Silkeborg, Gummersbach og Melsungen unnu sína leiki og standa vel að vígi fyrir síðari viðureignirnar um næstu helgi, ekki síst Bjerringbro/Silkeborg og Gummersbach sem unnu stórsigra.

Fjórða liðið, IFK Kristianstad, á erfitt verkefni fyrir höndum á Spáni eftir þriggja marka tap fyrir Granollers, 32:29, í Kristianstad í dag.

Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði eitt mark fyrir IFK Kristianstad sem átti á brattann að sækja frá upphafi gegn spænska liðinu.

Hafnfirðingurinn skoraði fjögur

Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði fjögur mörk þegar Bjerringbro/Silkeborg vann ungverska liðið FTC með 18 marka mun, 45:27, í Silkeborg í dag eftir að hafa verið átta mörkum yfir í hálfleik. Ungverska liðið lék með Val í riðli Evrópudeildinni tímabilið 2022/2023 og komst í undanúrslit Evrópubikarkeppninnar í vor. Ljóst er að FTC þarf á kraftaverki að halda í heimaleiknum til að snúa taflinu við.

13 marka sigur í Thisted

Lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðsson eiga sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar næsta víst eftir 13 marka sigur á danska liðinu Mors-Thy, 35:22, í Thisted í dag. Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm af mörkum Gummersbach og Teitur Örn Einarsson tvö. Gummersbach fer í riðil ásamt FH í Evrópudeildinni er fram heldur sem horfir.

Reynir Stefánsson var eftirlitsmaður EHF á leiknum.

FH-ingar hefja keppni í Evrópudeildinni í Toulouse

Sigur í afmælisgjöf

Elvar Örn Jónsson var í leikmannahópi MT Melsungen en Arnar Freyr Arnarsson ekki þegar liðið vann Elverum, 28:23, í Kassel í Þýskalandi. Elvar Örn skoraði ekki mark en hann var að taka þátt í sínum fyrsta leik með liðinu eftir talsverða fjarveru vegna meiðsla. Elvar Örn er 27 ára gamall í dag.

Síðari viðureign Melsungen og Elverum verður eftir viku í Noregi.

Úrslit leikja fyrri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í dag:
Ystads IF HF – Maritimo da Madeira Andebol/SAD 39:31.
ABC de Braga – Abanca Ademar León 23:21.
HC Kriens-Luzern – GC Amicitia Zürich 37:31.
RK Trimo Trebnje – Limoges 32:28.
Valur – RK Bjelin Spacva Vinkovci 34:25.
MT Melsungen – Elverum 28:23.
Mors-Thy – Gummersbach 22:35.
IFK Kristianstad – Granollers 29:32.
Bjerringbro/Silkeborg – FTC-Green Collect 45:27.
HCB Karvina – HC Izvidac 33:22.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -