- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þungi í öllu sem Serbarnir gera

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari, og Rut Arnfjörð Jónsdóttir, fyrirliði, bera saman bækur sínar eftir leikinn við Svía. Í dag bíður þeirra leikur við Serba á Ásvöllum i undankeppni EM. Mynd/EHF
- Auglýsing -

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, segist hafa farið vel yfir leik Serba gegn Tyrkjum í undankeppni Evrópumótsins sem fram fór í Serbíu á miðvikudaginn í aðdraganda undirbúnings íslenska landsliðsins vegna leiksins við Serbíu í dag klukkan 16 í Schenkerhöllinni á Ásvöllum. Serbar unnu Tyrki með níu marka mun, 36:27.

Ljóst sé að þrátt fyrir að talsverðar breytingar hafi orðið á serbneska liðinu á undanförnu ári þá standi eftir afar sterkir leikmenn þótt handknattleikskonur eins og Andrea Lekic hafi helst úr lestinni.


„Reynslan er mikil og er í kringum 30 ár og burðarásar eru 33 og 36 ára svo dæmi séu tekin. Þannig að við erum ekki að mæta byrjendum heldur reynslumiklum leikmönnum. Það er alveg ljóst,“ sagði Arnar þegar handbolti.is hitti hann að máli fyrir æfingu íslenska landsliðsins síðdegis í gær.

Mikið um klippingar

„Það er þungi í öllu sem Serbarnir gera. Þeir koma mikið í klippingar og nýta vel styrk sinn auk þess sem þeir leika góða vörn,“ sagði Arnar og bætir við að serbneska liðið sé talsvert frábrugðið því sænska sem íslenska liðið lék við í Eskilstuna á fimmtudagskvöld.


„Svíar eru í heimsklassa en Serbar eru með lið sem er í tólfta til sextánda sæti í Evrópu. Serbnesku leikmennirnir eru ekki eins fljótir og Svíarnir en eru stórar og sterkar og mjög erfiðar. Í leiknum við Serba verðum við að eiga við meiri skriðþunga en gegn Svíum,“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari Íslands í handknattleik kvenna.

Frítt inn á leikinn

Viðureign Íslands og Serbíu í 6. riðli undankeppni EM hefst klukkan 16 í Schenkerhöllinni á Ásvöllum. Aðgangur að leiknum er ókeypis þar sem Arionbanki býður landsmönnum á leikinn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -