- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þurfum á okkar sterkasta hóp að halda

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Síðar í þessum mánuði leikur íslenska kvennalandsliðið tvo síðustu leiki sína í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik. Annarsvegar gegn Svíum á Ásvöllum 20. apríl og þremur dögum síðar við Serba í Zrenjanin, úrslitaleik um farseðil á Evrópumeistaramótið sem haldið verður í nóvember.


Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari, greindi í gær frá hvaða 18 leikmenn hann hefur valið til að tefla fram í leikjunum tveimur. Athygli vakti að meðal þeirra sem valdar voru eru Framarnir Steinunn Björnsdóttir og Karen Knútsdóttir. Báðar hafa verið fjarri góðu gamni þegar kemur að landsliðinu. Sú fyrrnefnda er nýlega komin af stað aftur eftir krossbandaslit fyrir ári.

Tökum stöðuna eftir leikina

„Ég hef verið góðu sambandi við Steinunni og veit að hún hefur sinnt sinni endurhæfingu mjög vel. Þess utan stóð hún sig vel í fyrsta leik sínum með Fram um síðustu helgi. Ég geri mér grein fyrir á hvaða stað hún er og að framundan eru tveir erfiðir leikir hjá henni með Fram, við Val og ÍBV. Að þeim loknum tökum við stöðuna,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is.


„Vitanlega reiknum við með að allt verði í góðu og að Steinunn verði áfram á þeirri braut sem hún er komin inn á. Ef Steinunn getur hjálpað okkur í þeim leikjum sem framundan eru þá nýtum við okkur það,“ sagði Arnar ennfremur.

Hlakkar til að fá Karen inn í hópinn

„Hvað Karen varðar þá hefur hún leikið frábærlega í síðustu leikjum og verið upp á sitt besta að mínu mati. Karen Knútsdóttir er á þeim stað sem leikmaður sem getur svo sannarlega nýst landsliðinu. Á því leikur enginn vafi. Karen er mjög reynslumikil og þekkir vel að taka þátt í stórum verkefnum, bæði með landsliðinu og félagsliðum. Ég hlakka til að fá hana aftur inn í hópinn okkar.“

Söknum Ragnheiðar

Arnar segir af þeim leikmönnum sem ekki gátu gefið kost á sér þá sé söknuður að Ragnheiði Júlíusdóttur sem ekki hefur leikið handknattleik síðustu mánuði vegna veikinda sem hún er að jafna sig af. „Ragnheiður var að stimpla sig af krafti inn í liðið og átti til dæmis frábæran leik gegn Serbum hér heima í október. Að öðru leyti þá tel ég okkar bestu leikmenn í dag vera í hópnum,“ sagði Arnar og undirstrikar að við valið hafi verið gerðar fleiri breytingar.

Kemur inn nýjan leik

„Rakel Sara Elvarsdóttir hornamaður KA/Þórs kemur inn í hópinn aftur. Hún hefur farið á kostum í síðustu leikjum síns liðs.“

„Ég er og hef verið ánægður með hópinn í síðustu verkefnum og það sem við höfum verið að gera,“ sagði Arnar en tvö ár eru liðin í sumar síðan hann tók við starfi þjálfara A-landsliðs kvenna.


Eins og áður segir þá er framundan tveir mjög erfiðir landsleikir þar sem leikmenn íslenska landsliðsins þurfa að sýna allar sínar bestu hliðar á handknattleiksvellinum.

Mætum tveimur frábærum liðum

„Við erum að mæta tveimur frábærum landsliðum. Svíar sýndu það á tveimur síðustu stórmótum, Ólympíuleikunum og heimsmeistaramótinu í desember, að lið þeirra er eitt af fimm bestu í heiminum.


Serbneska landsliðið varð í 12. sæti á HM og lék afar vel á mótinu. Serbar hafa tekið miklum framförum eftir að Uros Bregar tók við þjálfun þeirra á síðasta hausti,“ sagði Arnar.


Íslenska landsliðið hefur ekki oft verið í þeirri stöðu að taka þátt í úrslitaleikjum um sæti á stórmóti eins og framundan er í Serbíu síðar í mánuðinum. „Bara það eitt og sér er gríðarlega mikilvægt. Við hlökkum til þess verkefnis. Við höfum verið að stíga skref fram á við sem lið. Leikurinn við Serba er einn liður í því ferli,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -