- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þýðir ekki að leika handbolta í handbremsu

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Við bjuggum okkur vel undir leikinn enda var alveg ljóst að við værum að fara í mjög erfiðan leik þar sem við vorum þar á ofan taldir sigurstranglegra liðið en menn voru hægir til að byrja auk þess sem markvörður ÍR varði vel. Upp úr þessu kom stress í mannskapinn. Það var ekki fyrr en við fórum í að leika sjö á sex sem okkur tókst að snúa taflinu við,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við handbolta.is í íþróttahúsinu í Austurbergi í gærkvöld eftir nauman sigur Stjörnunnar á botnliði Olísdeildarinnar, ÍR, 27:24.


Stjörnumenn byrjuðu leikinn illa og voru sjö mörkum undir, 10:3, eftir liðlega stundarfjórðungsleik. Eftir breytingu á leikskipulaginu, sem Patrekur nefnir hér að ofan, þ.e. skipta yfir í sjö manna sóknarleik, tókst Stjörnunni að ná 8:1 leikkafla fram að hálfleik.


„Ég ætla ekki að taka það af ÍR-ingum að þeir börðust og lögðu sig alla fram en mitt lið var einnig arfaslakt fyrsta korterið í leiknum. Það þýðir ekki að leika handbolta í handbremsu,“ sagði Patrekur sem vill hrósa liði sínu fyrir að komast upp úr öldudalnum.

„Einhver lið hefðu kannski brotnað við að lenda 10:3 undir gegn baráttuglöðu liði eins og ÍR-ingar hafa á að skipa. En strákarnir gerðu það ekki og þeir eiga skilið hrós fyrir það.


Þetta var ekki skemmtilegur leikur en hann endaði vel. Við fengum tvö stig sem var meginmarkmiðið. Ég gleðst yfir stigunum en hlakka ekki eins mikið til þess að horfa á leikinn aftur.

Ég vona að upphafskaflinn í leiknum verði mínum mönnum áminning um það hvernig á ekki að koma inn í næsta leik gegn ÍBV. Þá verða menn að sleppa aðeins fram af sér beislinu,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar við handbolta.is í Austurbergi í gærkvöld.

Staðan í Olísdeild karla og næstu leikir.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -