- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tilbúin að leika á milli jóla og nýárs

Birna Berg Haraldsdóttir leikmaður ÍBV. Mynd/Facebooksíða ÍBV
- Auglýsing -

Ekkert hefur verið leikið í Olísdeild kvenna frá 26. september er gert var tíu daga hlé vegna fyrirhugaðra æfinga kvennalandsliðsins. Ekkert varð af æfingabúðum landsliðsins svo þjálfarar félaganna héldu sínu strik og bjuggu sig undir að hefja leik á ný 9. okótóber. Áður en til þess kom var sett á æfinga,- og keppnisbann á höfuðborgarsvæðinu til að stemma stigu við vaxandi útbreiðslu kórónuveirunnar.

Aðeins var búið að leika þrjár umferðir í deildinni þegar hlé var gert 26. september.

Liðin utan höfuðborgarinnar, eins og t.d. sem það sem situr í efsta sæti Olísdeildar kvenna hefur mátt æfa nánast eins og ekkert hafi ískorist. Hinsvegar situr það við sama borð og önnur í deildinni að ekki hefur verið blásið til eins einasta leiks.

Vonir standa nú til þess að keppni hefjist á nýjan leik í Olísdeild kvenna um miðjan nóvember. Þá verða komnar um sjö vikur frá því að síðast var leikið í deildinni.

Handbolti.is sendi Birnu Berg Haraldsdóttur, leikmanni ÍBV, fjórar spurningar um það hvernig gengi að halda sér við efnið þegar vika eftir viku líður án kappleikja.

Heppin að mega æfa

Vissulega megið þið æfa eins og áður en hvernig er það að æfa og æfa vikum saman en sjá ekki fram á leiki?


„Ég verð að viðurkenna að þetta er mjög sérstakt tímabil núna. Auðvitað koma dagar þar sem maður er ekki jafn mótiveraður í að æfa þar sem eru engir leikir framundan. Þá er ég dugleg að minna mig á það að við landsbyggðarliðin erum heppin með að fá að æfa á meðan liðin á höfuðborgarsvæðinu fá það ekki. Við reynum bara að hugsa þetta þannig að við erum að leggja inn í bankann með erfiðum æfingum og endalausu púli núna sem vonandi skilar okkur árangri seinna á tímabilinu.“

Svolítið í lausu lofti


Hvernig gengur að halda einbeitingu?


„Það gengur ágætlega að halda einbeitingu. Auðvitað er það auðveldara þegar leikirnir eru í gangi. Venjulega líta vikurnar nokkurn veginn eins út hjá okkur og maður er inní rútínu með æfingar, fundi og leiki og veit hvenær í vikunni maður þarf að toppa. Núna er maður svolítið í lausu lofti en reynir þó að vinna með það sem maður hefur þó að einbeitingin sé ekki alveg á næsta leik, sem verður vonandi fyrr en seinna. Stundum er samt þægilegt að gera eitthvað annað en handbolta og brjóta þetta upp. Það er stundum nauðsynlegt að hvíla hausinn aðeins og labba uppá tindana hér í Eyjum eða gera eitthvað allt annað en handbolta og mæta svo fersk á næstu æfingu og núllstilltan haus.“

Nokkuð um alvarleg meiðsli


Ef hægt verður að byrja aftur um miðjan nóvember verða komnar sjö vikur frá síðasta leik. Hvaða áhrif hefur svona hlé á líkamann og hausinn?


„Ég held að flestir séu andlega klárir í að halda áfram með mótið og leikmenn séu almennt spenntir í að komast aftur á völlinn en því miður erum við búin að sjá alltof mikið af alvarlegum meiðslum núna í ágúst, september og október.
Margar stelpur til dæmis í Danmörku hafa verið að slíta krossbönd og fleiri topp handboltamenn eins og Haukur Þrastar og Karabatic.
Það er alltaf jafn óþægilegt að heyra af þessu sérstaklega fyrir svona leikmenn eins og mig sem hefur slitið krossband á báðum og farið í 4 hnéaðgerðir. Auðvitað tekur alltaf tíma að komast í gang eftir svona langa pásu og vonandi eru þjálfarar og leikmenn skynsamir þegar kemur að því að fara af stað aftur.“

Fagnar hverjum leik


Annað hlé verður í síðari hluta nóvember og framan af desember vegna verkefna hjá landsliðinu. Mótið verður þar af leiðandi afar sérstak fram að áramótum, ekki sátt?


„Ég öfunda HSÍ ekki að þurfa að púsla þessu móti saman núna þegar við þurftum að taka þessa óvelkomnu pásu. En ég fagna hverjum einasta leik núna sem við fáum að spila. Maður gerir sér nefnilega grein fyrir því hversu miklu máli handboltinn skiptir fyrir mann þegar hann er tekinn frá manni. Ég hef sjálf ekkert á móti því að spila milli jóla og nýárs ef þess þarf en vonandi er þetta eina pásan sem við þurfum að taka og við kveðjum þessa veiru fljótlega. Þetta er komið gott.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -