- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tilfinningin svipuð og í úrslitakeppni

Ólafur Andrés Guðmundsson leikur í Frakklandi. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Hafnfirðingurinn Ólafur Andrés Guðmundsson tekur nú þátt í sínu fjórða heimsmeistaramóti með íslenska landsliðinu í handknattleik. Hann stendur á þrítugu og er fyrirliði Svíþjóðarmeistara IFK Kristianstad hefur tekið þátt í 16 leikjum á HM og skoraði í þeim 36 mörk. Sautjándi leikurinn verður í kvöld í New Capital íþróttahöllinni í Kaíró þegar Ísland og Portúgal mætast í fyrstu umferð F-riðils klukkan 19.30.

Fyrsta mótið sem hann tók þátt í var HM á Spáni en þremur árum fyrr þreytti Ólafur frumraun sína með íslenska landsliðinu á EM og var í bronsliði mótsins þegar upp var staðið.


Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og mikið af sandi fokið út í veður og vind. Handbolti.is hitti Ólaf stuttlega að máli fyrir utan hótel landsliðsins í Kaíró í gær þar sem fínn sandur mettaði loftið í gjólunni í hótelgarðinum. Ólafur Andrés segir eftirvæntinguna alltaf vera fyrir hendi þegar líður að fyrsta leik á stórmóti þótt undirbúningurinn hafi um margt verið öðruvísi en áður vegna veiruskrattans sem eltir íbúa heimsbyggðarinnar á röndum.


„Stórmót er jú alltaf stórmót og þótt undirbúningurinn hafi verið með öðrum blæ þá höfum við þó leikið tvo hörkuleiki á síðustu viku og æft markvisst. Spennan er aðeins byrjuð að gera vart við sig,“ sagði Ólafur.

Smáatriðin skila árangri

„Manni líður núna eins og í úrslitakeppni þar sem leikið er við sama liðið nokkrum sinnum í röð. Það hefur farið mikill tími og einbeiting að vinna í einu liði á skömmum tíma, það er portúgalska landsliðinu, sem við mætum núna í þriðja sinn á rúmri viku. Fátt nýtt gerist en menn eru þó að gera hlutina betur í hvert skipti auk þess sem mörg smáatriði skila árangri þegar á tímann líður. Í rauninni er þetta alltaf sama, að bregðast hratt við, í stað þess að búa sig undir nýjan mótherja á hverjum degi eins og tekur svo við í framhaldinu á þessu móti,“ sagði Ólafur.


Eftir stóran sigur íslenska landsliðsins í öðrum leiknum við Portúgal á Ásvöllum á sunnudaginn má búast við að portúgalska liðið vilji sýna á sér aðrar hliðar í kvöld í þriðja og síðasta leik Íslands og Portúgals í þessari leikjaskorpu. Ólafur segist fastlega búast við að Portúgalir vilji slá frá sér eftir skellinn. „Mér fannst eins og þeir hafi kastað inn handklæðinu þegar kom fram í síðari hálfleik á sunnudaginn þegar þeim fannst sem stjórn leiksins væri runnin úr þeirra höndum.


Engu að síður þá gerðum við margt mjög vel í þeim leik og verðum að taka það með okkur. Við slógum vopnin úr höndum þeirra með því að leika með sjö menn í sókn, nokkuð sem hefur verið þeirra helst vopn til þessa. Við leystum það vel. Hvort við leikum með sjö í sókn á morgun einhvern hluta leiksins verður að koma í ljós,“ sagði Ólafur sem sækist eftir að leika sem mest.

Sennilega sterkasta liðið

„Fyrirfram tel ég Portúgal vera með besta liðið af þeim þremur sem við mætum í riðlakeppninni. Ég hef ekki séð mikið af hinum liðunum tveimur, Alsír og Marokkó. Sé litið til síðustu ára þá er ljóst að Portúgalar hafa náð bestum árangri af þessu þremur andstæðingum okkar sem við mætum á næstu dögum,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í gær.


Viðureign Íslands og Portúgals hefst klukkan 19.30 í kvöld og verður í þráðbeinni útsendingu hjá RÚV.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -