- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Tilfinningin var góð“

Steinunn Björnsdóttir fyrirliði Fram. Mynd/Fram
- Auglýsing -

„Mér gekk vonum framar og fann ekki fyrir óöryggi, náði að einbeita mér að því að spila handbolta eins og ekkert hefði ískorist,“ segir Steinunn Björnsdóttir leikmaður Fram og handknattleikskona ársins 2020 í samtali við handbolta.is.

Steinunn lék sinn fyrsta kappleik í rúmt ár á laugardaginn gegn Aftureldingu í Olísdeildinni. Steinunn sleit krossband í hné í landsleik í 18. mars á síðasta ári. Átta dögum áður lék hún síðast með Fram í Olísdeildinni.


„Eftir aðgerðina í lok apríl í fyrra þá taldi ég nánast útilokað að ná einhverjum leikjum á þessu tímabili. Þess vegna er ég fyrst og fremst þakklát fyrir að geta verið með og hjálpað eitthvað til.

Eitt að vera á æfingum – annað taka þátt í leik

Ég hafði tekið þátt í æfingum um nokkurt skeið en það er eitt að taka þátt í æfingum og annað fara út í leik þar sem maður kastar sér á eftir öllum boltum og gefur ekkert eftir. Segja má að mér hafi fundist vera náttúrulegt að taka aftur þátt í leiknum. Tilfinningin var góð,“ sagði Steinunn sem leið bara vel í gær þegar handbolt.is sló á þráðinn til hennar, sólarhring eftir fyrsta leikinn. Steinunn segir að hún eigi skiljanlega eitthvað í land með að komast í leikform.

Reynir betur á gegn sterkari andstæðingi

„Ég gerði mistök í leiknum á laugardaginn og fann að mig vantar ennþá eitthvað upp á leikformið. Það verður fróðlegt að sjá hvar maður stendur líkamlega þegar maður mætir sterkara liði. En það var gott að byrja á þessum leik og fá sjálfstraust fyrir tvo síðustu leikina í deildinni,“ sagði Steinunn sem hlakkar til næsta leiks Fram í deildinni á laugardaginn. Þá mætast tvö efstu lið Olísdeildar kvenna, Fram og Valur, í Framhúsinu. Fram leikur við ÍBV í lokaumferðinni sem fram fer á skírdag.


Eins og áður segir slitnaði krossbandið 18. mars í landsleik við Norður Makedóníu í Skopje. Rúmum mánuði síðar, 26. apríl, gekkst Steinunn undir aðgerð hjá Örnólfi Valdimarssyni bæklunarlækni.

Vildu helst að ég biði fram á haust

„Tíminn hefur liðið hratt. Ég hef verið í mjög góðu sambandi við Örnólf og Rúnar Pálmarsson sjúkraþjálfara. Báðir eru miklir kunnáttumenn á sínu sviði, meðal annars þegar kemur að endurhæfingu eftir krossbandaslit. Ég fékk leyfi hjá þeim til að fara fyrr af stað þar sem ég hef náð upp góðum styrk í flesta vöðva, meðal annars í framanverðu læri. Þeir vildu helst að ég biði með að fara af stað fram á haust, ekki síst þar sem rannsóknir benda til þess að meiri líkur séu á, ekki síst hjá konum, að þær slíti krossbandið á ný ef þær mæta til leiks áður en að minnsta kosti tólf mánuðir eru liðnir frá aðgerð. Jafnvel þarf að líða eitt og hálft ár þegar ungar konur eiga í hlut. Ég tilheyri ekki þeim hóp lengur,“ sagði Steinunn kímin.

Ró fylgir góðri endurhæfingu

„Mér finnst ég vera tilbúin. Ég hafði verið með á æfingum hjá Fram um nokkurt skeið. Allt ferlið hefur gengið vel. Ekkert bakslag hefur átt sér stað og á heildina litið finnst mér ég hafa gert allt í endurhæfingunni eins og vel og hægt hefur verið. Þeirri staðreynd fylgir líka mikil ró sem er mikilvægt að fara með inn á leikvöllinn aftur,“ sagði Steinunn sem alltaf hefur verið þekkt fyrir að æfaa af mikilli samviskusemi og dugnaði.

Hefur heyrt í landsliðsþjálfaranum

Um leið og Steinunn mætti út á leikvöllinn aftur hófust vangaveltur hvort hún gefi kost á sér í landsliðið í leikina tvo sem standa fyrir dyrum síðar í þessum mánuði í undankeppni EM. Steinunn viðurkennir að Arnar Pétursson landsliðsþjálfari hafi tekið á henni púlsinn.

Sjáum til með vangaveltur

„Ég þori nú varla að nefna landsliðið við sjúkraþjálfarann minn áður en ég slæ einhverju föstu varðandi landsliðið. Eftir Valsleikinn á laugardaginn kemur betur í ljós hver staðan er á mér eftir að hafa tekist á við mjög sterkan andstæðing. Við skulum sjá til með þessar vangaveltur í bili,“ sagði Steinunn Björnsdóttir handknattleikskona hjá Fram í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -