- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Tók mikinn framfarakipp á þessari leiktíð“

Rakel Sara Elvarsdóttir efnilegasti leikmaður Olísdeildar kvenna keppnistímabilið 2020/2021 og Íslandsmeistari með KA/Þór. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Ég mjög ánægð og stolt með þessa viðurkenningu. Hún er afrakstur mikillar vinnu sem ég hef lagt af mörkum síðasta árið,“ sagði Rakel Sara Elvarsdóttir hægri hornamaður Íslandsmeistara KA/Þórs í samtali við handbolta.is í gær eftir að hún var valinn efnilegasti leikmaður Olísdeildar kvenna á nýliðnu keppnistímabili.


„Þegar maður leikur með svona sterku liði þá er ekkert annað í boði en að taka framförum. Ég tók mikinn framfarakipp á þessari leiktíð,“ sagði Rakel Sara en hún er átján ára gömul og lék alla 19 leiki KA/Þórs í Olísdeildinni og í úrslitakeppninnni.

Áberandi yfirvegun

Alls skoraði Rakel Sara 75 mörk, stal boltanum 16 sinnum og náði 14 fráköstum samkvæmt HBStatz sem heldur utan um tölfræði leikja í Olísdeildum kvenna og karla. Skotnýting Rakelar Söru var 70,1%. Ekki síst vakti athygli hversu yfirveguð hún var oft og tíðum í opnum færum á lokakafla spennandi leikja þar sem hún skoraði mikilvæg mörk. Má þar m.a. nefna úrslitaleikinn við Fram um deildarmeistaratitilinn í Olísdeildinni og í undanúrslitaleikjunum við ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn. Yfirvegun sem oft er meira áberandi á meðal reyndari leikmanna.

Þá er það bara næsta sókn

„Ég hef svo sem ekkert spáð mikið í það. Hef bara þá trú að ég geti alveg eins skorað og aðrir. Ef það tekst ekki þá nær það bara ekkert lengra. Þá er er það bara næsta sókn eða næsti leikur,“ sagði Rakel Sara spurð um yfirvegunina sem hefur oft einkennt hana á ögurstundum.

Rakel Sara Elvarsdóttir, hornamaður KA/Þórs, að skora sigurmarkið gegn ÍBV í framlengingu í oddaleik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


„Tímabilið var frábært og eins ég hef margoft sagt á síðustu vikum þá erum við með geggjaða liðsheild vegna þess að við erum jafngóðar vinkonur innanvallar sem utan,“ segir Rakel Sara en íþróttir hafa verið hennar ær og kýr ef svo má segja frá barnæsku.

Valdi handboltann

Rakel Sara æfði jöfnum höndum handknattleik og knattspyrnu frá barnsaldri en þegar hún var kominn upp í tíunda bekk voru kappleikir í þessum tveimur greinum farnir að rekast á. Þá var kominn tími til að velja á milli, alltént að sinni. „Ég ákvað að halda mig við handboltann. Sjá hvernig myndi ganga. Ég hugsaði sem svo að ég gæti alltaf farið aftur í fótboltann ef mér sýndist svo. Til þess hefur ekki komið ennþá og ég hef bara verið á fullu í handboltanum síðan.“

Á leið til Norður-Makedóníu

Rakel Sara situr ekki með hendur í skauti í sumar og bíður eftir næsta keppnistímabili. Framundan er þátttaka með U19 ára landsliðinu í B-deild Evrópmótsins sem fram fer í Norður-Makedóníu frá 10. til 18. júlí. „Við förum út 8. júlí og verðum í sterkum riðli. Æfingar hefjast á föstudaginn [á morgun] svo maður verður í Reykjavík að dunda sér á næstunni,“ sagði Rakel Sara en landsliðið verður í tveggja vikna stífum æfingabúðum fyrir ferðina á mótið auk tveggja vináttuleikja við færeyska landsliðið í þessum aldursflokki.

Slepp við útihlaupin á meðan

Framundan er því handbolti og aftur handbolti frá hjá Rakel Söru eitthvað fram eftir júlímánuði. Hún segist ekki kvíða því enda sé íþróttin hennar líf og yndi. „Það verður gaman að vera úti með landsliðinu og spila handbolta. Ekkert er skemmtilegra. Til viðbótar þá slepp ég á meðan við útihlaupin með félögunum fyrir norðan,“ sagði Rakel Sara glettin á svip.


KA/Þórsliðið fékk tveggja vikna frí frá skipulögðum æfingum eftir að Íslandsmótinu sleppti fyrir nærri þremur vikum. „Annars er maður aldrei í fríi þegar maður leikur með toppliði. Maður getur aldrei slappað af.“

Ríkur metnaður

Rakel Sara segist hafa ákveðin markmið í handboltanum. Hver þau nákvæmlega eru segist hún ekki vilja gefa upp, heldur halda fyrir sjálfa sig. Ljóst er þó af samtali við hana að metnaður er fyrir hendi í ríkum mæli. Ef að líkum lætur þá hefur áhugafólk um handknattleik aðeins séð upphafið að dugmiklum ferli. „Ég ætla mér að minnsta kosti langt. Er ekki best að láta þar við sitja í yfirlýsingunum,“ segir Rakel Sara brosir.

Rakel Sara Elvarsdóttir, KA/Þór, á fullri ferð í hraðaupphlaupi í leik við Val í úrslitum Íslandsmótsins. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


Reikna má með að liði KA/Þórs verði gefinn enn meiri gaumur á næsta keppnistímabili eftir árangur liðsins á þeirri sem var að líða. Liðið vann Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn, varð deildarmeistari í Olísdeild kvenna í fyrsta skipti og sigraði í meistarakeppni HSÍ í upphafi hins slitrótta keppnistímabils. Rakel Sara segist ekki líta svo á að pressan verði meiri á liðinu á næsta keppnistímabili vegna árangurs vetrarins.

Spennandi tímabil framundan

„Síðasta tímabil fór eins og það fór. Við höldum bara okkar striki í hverjum leik, gerum okkar best og vonumst eftir að vinna. Við erum ekkert hættar og ætlum ekki að láta keppnina hér heima duga vegna þess að við ætlum að taka þátt í Evrópukeppni félagsliða sem verður spennandi og góð reynsla fyrir okkur,“ sagði Rakel Sara Elvarsdóttir, Íslandsmeistari með KA/Þór og efnilegasti leikmaður Olísdeildar kvenna keppnistímabilið 2020/2021.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -