- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tókst ekki að vinna upp átta marka forskot í toppslag

Ómar Ingi Magnússon leikmaður SC Magdeburg íslenska landsliðsins. Mynd/EPA
- Auglýsing -

THW Kiel hafði betur í heimsókn sinni til þýsku meistaranna SC Magdeburg, 34:33, í 1. deild karla í gær. Frábær endasprettur meistaranna dugði þeim ekki til að öngla í annað stigið. Kiel var þremur mörkum yfir í hálfleik, 19:16, og náði átta marka forskoti þegar um 20 mínútur voru til leiksloka, 26:18.

Aðsópsmiklir að vanda

Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmenn Magdeburg komu að vanda mikið við sögu í leiknum. Ómar Ingi skoraði 9 mörk og átti þrjár stoðsendingar. Fimm marka sinna skoraði Ómar Ingi af vítapunktinum hvar hann var með fullkomna nýtingu.

Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmaður Magdeburg. Mynd/IHF


Gísli Þorgeir skoraði fjögur mörk og átti fjórar stoðsendingar.
Nikola Bilyk skoraði 34. mark Kiel þegar 27 sekúndur voru til leiksloka að viðstöddum 6.600 áhorfendum í Magdeburger Arena. Uppselt var á leikinn. Daninn Magnus Saugstrup klóraði í bakkann fyrir Magdeburg þegar um 15 sekúndur voru til leiksloka.

Tylltu sér á toppinn

Kiel er efst í deildinni með 22 stig eftir 13 leiki. Hætt er við að dvöl liðsins á toppnum verði skammvinn vegna þess að Füchse Berlin leikur við Lemgo í dag. Berlínarliðið er einu stigi á eftir Kiel. Magdeburg er fimm stigum á eftir Kiel í fjórða sæti en á tvo leiki til góða. Væntanlegir mótherjar Vals á þriðjudagskvöldið, Flensburg, er jafnt Magdeburg að stigum. Flensburg sækir MT Melsungen heim í dag.

Áfram í þriðja sæti

Ýmir Örn Gíslason og samherjar í Rhein-Neckar Löwen sitja áfram í þriðja sæti þýsku 1. deildar karla í handknattleik eftir sigur á Erlangen í Nürnberg í gærkvöld, 33:30. Ýmir Örn skoraði eitt mark og var að vanda aðsópsmikill við varnarleikinn.
Erlangen var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:16. Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari Erlangen.

Arnór Þór Gunnarsson. Mynd/Bergischer HC

Arnór Þór skoraði þrisvar

Arnór Þór Gunnarsson skoraði þrjú mörk, ekkert þeirra úr vítaköstum, í gærkvöld í sigurleik Bergischer HC á botnliði ASV Hamm-Westfalen, 31:27, í Westpress Arena, heimavelli Hammingja.


Bergischer HC færðist upp í 11. sæti með sigrinum, stigi fyrir ofan Leipzig sem sækir Stuttgart heim í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -