- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tónninn var sleginn í upphafi

Ýmir Örn Gíslason er klár í slaginn gegn Alsír annað kvöld á HM. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið hóf undankeppni EM í handknattleik karla í kvöld af miklum krafti þegar það lagði Litháen, 36:20, í fyrstu umferð undankeppninnar. Forskotið var níu mörk í hálfleik, 19:10. Leikmenn Litháen virtust aldrei vera líklegir til að gera rósir í leiknum eftir að hafa verið slegnir hressilega út af laginu strax í upphafi.

Afar sérstakar aðstæður voru í Höllinni í kvöld. Engir áhorfendur voru á staðnum og því nokkuð dauft yfir að sjá. Þeir fáu starfsmenn sem voru á sveimi voru með grímur og bláa gúmmíhanska á höndum. Menn sáust vart talast við. Mikið vona ég að ekki verði mikið fleiri landsleikir við þessar aðstæður.

Eru orðnir vanir

Leikmenn létu þetta ekki slá sig út af laginu, a.mk. ekki þeir íslensku, enda sögðust þeir sumir vera orðnir næsta vanir að leika í tómum eða fámennum keppnishöllum víða í Evrópu.

Tónninn var sleginn stax í upphafi.

Varnarleikurinn var afar traustur og varnarmenn íslenska liðsins með þá Ými Örn Gíslason og Arnar Frey Arnarsson fremsta í flokki tókst að slá vopnin úr höndum á miðjumanninum Aidenas Malasinskas og hávöxnu stórskyttunni Lukas Simenas sem var ekki með nema fram í miðjan hálfleikinn þegar hann fór af leikvelli.

Vörnin var traust en einnig var sóknarleikurinn afar lipurlegur. Hraðinn mikill og leikmenn Litháa voru eins og álfar út úr hól á köflum, jafnt í vörninni sem í sókninni og ljóst að sá skammi tími sem var til undirbúnings hefur ekki nýst liðinu sem skildi.

Fátt sem minnti á liðið 2018

Leikur landsliðs Litháen minnti um fátt á liðið sem lék í tvígang gegn íslenska landsliðinu í undankeppni HM vorið 2018 og skaut mönnum heldur betur skelk í bringu. Margir sömu leikmennirnir voru fyrir hendi en þeir sýndu ekki sparihliðarnar að þessu sinni, svo mikið er víst

Hákon Daði Styrmisson nýtti tækifærið sem hann fékk og skoraði sjö mörk í fyrri hálfleik, jafnt eftir uppstilltan leik og hraðaupphlaup.

Staðan að loknum fyrri hálfleik var 19:10.

Elvar Örn Jónsson skoraði fimm mörk í kvöld og var einnig öflugur í vörninni. Hér sækir hann að Mindaugas Dumicius, fyrrverandi leikmanni Akureyrar handboltafélags. Mynd/Guðmundur Lúðvíksson

Segja má að íslenska landsliðið hafi haldið uppteknum hætti í síðari hálfleik. Arnar Freyr og Ýmir Örn léku á als oddi áfram í vörninni auk þess sem Aron og Elvar Örn voru traustir í bakvarðarhlutverkunum. Leikmenn gáfu ekki þumlung eftir. Þeir héldu uppteknum hætti frá því í fyrri hálfleik með framúrskarandi varnarleik og afar fjölbreyttum sóknarleik og virtist engu máli skipta hver tók að sér hlutverk í sókninni, allir skiluðu sínu.

Aron Pálmarsson fór á kostum í sóknarleiknum með útsjónarsemi sinni. Elvar Örn Jónsson var einnig afar öflugur og sömu sögu er að segja af Janus Daða Smárasyni.  Arnór Þór Gunnarsson sýndi drenglyndi og fórnfýsi með því að koma heim á elleftu stundu og skila afar góðum leik allt þar til Óðinn Þór Ríkharðsson leysti hann af á lokakaflanum.

Stórleikur Viktors Gísla

Viktor Gísli Hallgrímsson var mjög góður í síðari hálfleik með um 50 % hlutfallsmarkvörslu. Björgvin Páll Gústavsson stóð einnig fyrir sínu í fyrri hálfleik. Viktor Gísli sýndi að hann er alltaf að styrkjast sem markvörður.

Segja má að landslið Litháen hafi valdið vonbrigðum. Vissulega vantaði þrjá sterka leikmenn í hópinn. Góð byrjun íslenska liðsins virtist slá þá fljótlega út sporinu. Eftir það virtist lítill áhugi fyrir að komast inn á sporið á nýjan leik.

Á heildina litið frábær byrjun á undankeppninni hjá íslenska landsliðinu við afar sérstakar aðstæður í Laugardalshöll án áhorfenda.

Mörk Íslands: Hákon Daði Styrmisson 8, Arnór Þór Gunnarsson 5/2, Elvar Örn Jónsson 5, Viggó Kristjánsson 4, Aron Pálmarsson 3, Óðinn Þór Ríkharðsson 2, Janus Daði Smárason 2, Ýmir Örn Gíslason 2, Arnar Freyr Arnarsson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 1, Magnús Óli Magnússon 1, Orri Freyr Þorkelsson 1.

Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 11, Björgvin Páll Gústavsson 4.

Utan vallar: 6 mínútur.

Mörk Litháen: Lukas Simenas 5, Aidenas Malasinkas 5/4, Mindaugas Dumicius 3, Mykolas Lapiniauskas 3, Gabrielius Zanas Virbauskas 2, Skirmantas Pleta 2, Valdas Drabavicius 1.

Varin skot: Edmundas Peleda 4, Vilius Rasimas 2.

Utan vallar. 10 mínútur, þar af fékk Lukas Simenas rautt spjald í síðari hálfleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -