- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þórey Anna tryggði annað stigið í dramatík í Úlfarsárdal

Stefán Arnarson þjálfari Fram og Rakel Dögg Bragadóttir aðstoðarþjálfari. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Þórey Anna Ásgeirsdóttir tryggði Val annað stigið í heimsókn liðsins til Framara í Úlfarsárdal í kvöld í upphafsleik 10. umferðar Olísdeildar kvenna, 20:20. Hún skoraði jöfnunarmarkið úr vítakasti þegar leiktíminn var úti. Vítakast sem Thea Imani Sturludóttir vann af harðfylgi í framhaldi af því að Valur vann boltann 10 sekúndum fyrir leikslok þegar leiktöf var dæmd á Framara sem áttu þess kost að tryggja sér bæði stigin.

Þetta var fyrsta jafnteflið í Olísdeild kvenna á leiktíðinni í 37 leikjum.


Valsliðið er áfram efst í deildinni en tapaði í kvöld fyrsta stigi sínu. Valur er með 19 stig eftir 10 leiki. Fram er í fjórða sæti með 11 stig. Frammistaða Framliðsins í kvöld er sennilega sú besta hjá liðinu á tímabilinu þótt það hafi á tíðum, ekki síst í fyrri hálfleik gert sig sekt um að tapa boltanum alltof oft.


Varnarleikur Fram var afar góður og Hafdís Renötudóttir frábær í markinu með liðlega 40% hlutfallsmarkvörslu, þar af þrjú vítaköst.


Leikurinn var bráðskemmtilegur og æsilega spennandi en um leið nokkuð kaflaskiptur. Fram byrjaði vel með þremur fyrstu mörkum leiksins. Valur svaraði með því að ráða lögum og lofum fram að hálfleik eftir snemmtekið leikhlé Ágústs Þórs Jóhannssonar þjálfara. Munurinn var þrjú mörk eftir fyrri hálfleik, 11:8, Val í vil sem hafði m.a. brugðist bogalistin í tveimur vítaköstum.

8:2 kafli hjá Fram

Fram byrjaði síðari hálfleik vel en eins og í þeim fyrri datt leikur liðsins niður og Valur gekk á lagið og náði fjögurra marka forskoti, 15:11, á fertugustu mínútu. Eftir það sneri Fram leiknum sér í hag og var tveimur mörkum yfir, 19:17, fimm mínútum fyrir leikslok.

Mikilvægar vörslur Söru Sifjar

Fyrir utan síðustu sóknina sem endaði með leiktöf þá fékk Fram svo sannarlega færi til þess að vinna leikinn eða fara langt með það. Sara Sif Helgadóttir, markvörður Vals, sá til þess að halda sínu liði inni í leiknum á síðustu mínútunum með þremur afar mikilvægum vörslum, tvisvar í röð frá Steinunni Björnsdóttur og síðan frá Þóreyju Rósu Stefánsdóttur í hægra horni, hálfri annarri mínútu fyrir leikslok.

Hafdís í stóru hlutverki

Hafdís markvörður Fram lék einnig stórt hlutverki í marki Fram en hún varði jafnt og þétt allan leikinn og átti ekki sístan þáttinn í að Fram komst inn í leikinn í síðari hálfleik eftir að liðið varð fjórum mörkum undir, 11:15.


Mörk Fram: Madeleine Lindholm 5, Þórey Rósa Stefánsdóttir 4, Steinunn Björnsdóttir 4/1, Kristrún Steinþórsdóttir 3, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 2, Tinna Valgerður Gísladóttir 1, Tamara Jovicevic 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 14/3, 41,2%.
Mörk Vals: Mariam Eradze 5, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 5/4, Sigríður Hauksdóttir 2, Elín Rósa Magnúsdóttir 2, Thea Imani Sturludóttir 2, Lilja Ágústsdóttir 2, Sara Dögg Hjaltadóttir 1/1, Hildigunnur Einarsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 8/1, 28,6%.

Staðan í Olísdeild kvenna:

Valur10910292 – 226189
Stjarnan8701245 – 18714
ÍBV8602218 – 20212
Fram10514268 – 23111
Haukar9306246 – 2586
KA/Þór9207217 – 2514
Selfoss9207238 – 2744
HK9108200 – 2952

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -