- Auglýsing -
- Auglýsing -

Torsóttur og velkominn

Sebastian Alexandersson, þjálfaði Fram á síðasta tímabili. Hann er þjálfari HK. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson.
- Auglýsing -

„Eins og mótið hefur byrjað hjá okkur þá var þessu sigur bæði velkominn og torsóttur,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari karlaliðs Fram, glaður í bragði eftir að lið hans vann ÍR, 27:24, í lokaleik 4. umferðar Olísdeildar karla í handknattleik í Framhúsinu í gærkvöld Þetta var fyrsti sigur Fram í deildinni en áður hafði liðið gert jafntefli við Aftureldingu í Framhúsinu en tapað fyrir KA og FH á útivelli.


„Með smá skynsemi hefðum við getað unnið fyrsta leikinn í mótinu og með heppni annan leikinn, vorum slappir í þriðja leiknum gegn FH. Það er bara svo stutt á milli í íþróttum og staðan gæti verið sú núna að við værum með sex stig í stað þriggja. En af því að illa hefur gengið hjá okkur að reka smiðshöggin á sigurleikina þá urðu menn svolítið stressaðir að þessu sinni.
Við fórum hinsvegar vel yfir það fyrir leik að sama hvernig spilamennskan væri þá skipti öllu máli að ná sigri og það tókst. Markmiðinu var náð, fyrsti sigurinn er í höfn,“ sagði Sebastian og undirstrikaði að mörg framfaramerki sjáist á leik Fram-liðsins með hverri vikunni sem líður.


„Mörg smærri atriði horfa til betri vegar en ákvarðanataka og færanýting er nokkuð sem við erum enn að vinna í og eigum nokkuð í land með að verði góð,“ sagði Sebastian og benti á að varnarleikur Fram hafi verið betri í síðari hálfleik en í þeim fyrri.

„Eins fengum við færri hraðaupphlaup á okkur þegar á leikinn leið vegna þess að menn sýndu meiri skynsemi í sóknarleiknum. Það var ýmislegt jákvætt að þessu sinni fyrir utan sigurinn.
Hinsvegar þarf ég að skoða vel með strákunum af hverju við erum betri í síðari hálfleik en í þeim fyrri. Það hefur einkennt alla fjóra leiki okkar fram til þessa. En það er léttir að ná í fyrsta sigurinn þótt við vildum ná honum í fyrsta leik. Að þess sinni mættum við í leik þar sem ætlast var til þess að við ynnum. Slík áskorun er erfið andlega en menn stóðust þá áskorun. Menn héldu ró allan leikinn,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Fram í samtali við handbolta.is í Safamýri í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -