- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tveggja marka tap – besti leikur kvennalandsliðsins frá upphafi – áfram veginn

Steinunn Björnsdóttir, Elín Jóna Þorsteinsdóttir, Andrea Jacobsen og Berglind Þorsteinsdóttir fagna eftir að Elín Jóna varði vítakast í fyrri hálfleik. Frammistaða Elínar Jónu í leiknum var stórbrotin. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


Íslenska landsliðið tapaði naumlega fyrir hollenska landsliðinu, 27:25, í upphafsleik F-riðils Evrópumótsins í handknattleik kvenna í Ólympíuhöllinni í Innsbruck í kvöld. Frammistaða íslenska liðsins var sannarlega framar vonum margra gegn einu öflugasta landsliði heims sem mátt þakka fyrir sigurinn þegar upp var staðið.

Leikur íslenska landsliðsins er sannarlega eitthvað sem hægt er að byggja á til næstu leikja í mótinu. Að vera nærri a.m.k. öðru stiginu gegn Hollendingum er meira en að segja það. Væntanlega var um að ræða einn besta ef ekki besta leik kvennalandsliðs Íslands. Ekki eru liðin ýkja mörg ár síðan íslenska landsliðið steinlá fyrir Hollendingum og gat ekki gert sér vonir um vera með jafnan leik í 55 mínútur. Hvað þá á stórmóti þegar mikið er undir.

Næst á sunnudag

Næsti leikur Íslands á EM verður við Úkraínu á sunnudaginn. Með sigri verður hægt að stilla upp úrslitaleik um sæti í milliriðlum á þriðjudaginn sem væri stórkostlegt tækifæri.

Framúrskarandi fyrri hálfleikur

Íslenska liðið hóf leikinn af miklum krafti og þunga. Sóknarleikurinn var agaður og gekk frábærlega fyrstu 20 mínúturnar. Hollenska liðinu kom mótspyrnan á óvart og tóku leikhlé eftir 12 og hálfa mínútu verandi þremur mörkum undir, 8:5. Hollendingum tókst nokkrum sinnum að jafna metin en alltaf komst íslenska liðið yfir á nýjan leik. Varnarleikurinn var agaður og leikmönnum tókst undantekningalaust að komast heim, eins og Arnar Pétursson sagði svo mikilvægt.

Einu sinni yfir

Hollenska liðið komst í fyrsta og eina skiptið yfir í fyrri hálfleik eftir 22 mínútur og 20 sekúndur, 10:11. Íslenska liðið svaraði með tveimur mörkum í röð.

Stórkostleg Elín Jóna

Síðustu 10 mínútur fyrri hálfleiks voru erfiðar hvað varðar sóknarleik íslenska liðsins. Nokkrir tapaði boltar sem voru óþarfi sem hleyptu Hollendingum inn í leikinn. Þá kom Elín Jóna Þorsteinsdóttir markvörður til sögunnar. Hún var frábær og varði alls níu skot í hálfleiknum, þar af eitt vítakast, einnig skot eftir hraðaupphlaup og úr opnum færum úr horni.
Staðan var jöfn í hálfleik, 12:12.

Kaflaskiptur síðari hálfleikur

Hollendingar hófu síðari hálfleik og náðu frumkvæðinu og voru með fjögurra marka forskot, 18:14, eftir um tíu mínútur þegar Arnar Pétursson tók leikhlé og taldi í leikmenn kjark. Það tókst og fljótlega jafnaði íslenska liðið og hélt í við hollenska liðið þangað til á allra síðustu mínútum þegar Hollendingar náðu fjögurra marka forskoti, 27:23, eftir kaflaskiptan síðari hálfleik

Íslenska liðið skoraði tvö síðustu mörkin. Leikmenn gengu vonsviknir af leikvelli, skiljanlega eftir frábæran leik gegn einu sterkasta liði heims.

Mörk Íslands: Perla Ruth Albertsdóttir 8, Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Thea Imani Sturludóttir 3, Steinunn Björnsdóttir 3, Andrea Jacobsen 2, Elín Rósa Magnúsdóttir 2, Þórey Rósa Stefánsdóttir 1,Elísa Elíasdóttir 1, Elín Jóna Þorsteinsdóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 15/1, 36,5% – Valin maður leiksins.
Mörk Hollands: Larissa Nüsser 5, Antje Angela Malenstein 5, Dione Housheer 5, Lois Abbingh 3, Merel Freriks 3, Bo van Wetering 2, Inger Smits 2, Zoë Sprengers 1, Sarah Dekker 1.
Varin skot: Yara Ten Holte 12/1, 35,2% – Rinka Duijndam 1, 33,3%.

Handbolti.is var í Ólympíuhöllinni í Innsbruck og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -