Fredericia HK og Ribe-Esbjerg, sem skarta Íslendingum innan sinna raða, komust í undanúrslit í úrslitakeppni danska handknattleiksins í dag. Fredericia HK, sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar og Einar Þorsteinn Ólafsson leikur með, vann meistara GOG örugglega, 34:24, á heimavelli og fór áfram úr öðrum riðli átta liða úrslita ásamt Skjern. GOG og Ringsted sitja eftir.
Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði ekki fyrir Fredericia HK en átti eina stoðsendingu.
Ribe-Esbjerg vann Mors-Thy, 28:26, á útivelli í uppgjöri liðanna um að fylgja Aalborg Håndbold úr hinum riðli átta liða úrslitanna áfram í undanúrslit. Mors-Thy og Bjerringbro/Silkeborg sitja eftir.
Ribe-Esbjerg hafnaði í áttunda sæti dönsku úrvalsdeildarinnar og er fyrsta liðið sem kemst í undanúrslit eftir að hafa hafnað í áttunda sæti í deildarkeppninni.


Ágúst Elí Björgvinsson varði sjö skot, þar af eitt vítakast, á þeim tíma sem hann stóð í marki Ribe-Esbjerg í dag, 27%. Elvar Ásgerisson skoraði þrjú mörk og gaf þrjár stoðsendingar auk þess að ganga vasklega fram í vörninni.
Í undanúrslitum mætast annarsvegar Fredericia HK og Ribe-Esbjerg, hinsvegar Aalborg Håndbold og Skjern. Fyrsta umferð undanúrslitanna verður fimmtudaginn 16. maí. Vinna þarf tvo leiki til þess að komast í úrslit.