- Auglýsing -
- Auglýsing -

U18: Annar frábær leikur – 16-liða úrslit innan seilingar

Íslenska kvennalandslið á HM 18 ára landsliða. Mynd/Brynja
- Auglýsing -

Ethel Gyða Bjarnasen markvörður tryggði íslenska landsliðinu annað stigið í hörkuleik við Svartfellinga í annarri umferð A-riðils heimsmeistaramótsins í handknattleik í Skopje í dag, 18:18. Hún varði vítakast þegar átta sekúndur voru til leiksloka. Ísland hefur þar með þrjú stig eftir tvo fyrstu leikina og stendur vel að vígi þegar horft er til þess að ná öðru af tveimur efstu sætunum í riðlinum og komast í 16-liða úrslit.


Á morgun verður frídagur áður en kemur að lokaleiknum í riðlinum við Alsírbúa á þriðjudaginn klukkan 10.30. Alsír hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í mótinu með nokkrum mun. Úrslitin í dag sýna að sigurinn á Svíum í gær var engin tilviljun.


Viðureignin við Svartfellinga í dag var hnífjöfn og spennandi í síðari hálfleik. Íslenska liðið var með frumkvæðið lengst af í fyrri hálfleik og náði mest þriggja marka forskoti. Svartfellingar náðu að komast inn í leikinn á síðustu mínútum fyrri hálfleiks með því að skora fjögur mörk í röð og komast marki yfir, 11:10, áður en Inga Dís Jóhannsdóttir jafnaði metin, 11:11, rétt áður en leiktíminn var úti.


Síðari hálfleikur var hnífjafn og æsispennandi. Jafnt var á öllum tölum. Svartfellingar voru harðir í horn að taka og á stundum grófir. Íslensku stúlkurnar létu það ekki á sig fá og börðust áfram af miklum dugnaði. Rakel Oddný Guðmundsdóttir jafnaði metin, 18:18, þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Bæði lið fengu tækifæri til þess að skora eftir það en allt kom fyrir ekki. Ethel Gyða sá síðan til þess að annað stigið var í höfn. Ísland átti síðustu sókn leiksins en tíminn var of naumur til þess að hægt var að leika í gott færi til að tryggja sigurinn.


Varnarleikur íslenska liðsins var frábær frá upphafi til enda og Ethel Gyða átti framúrskarandi leik í síðari hálfleik. Í sókninni lék íslenska liðið sig í mörg góð færi en gekk á tíðum illa að skora enda var markvörður Svartfellinga einstaklega vel með á nótunum.


Mörk Íslands: Lilja Ágústsdóttir 6, Elín Klara Þorkelsdóttir 4, Tinna Sigurrós Traustadóttir 3, Inga Dís Jóhannsdóttir 2, Elísa Elíasdóttir 1, Embla Steindórsdóttir 1, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1.

Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 14/2.


Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -