- Auglýsing -
- Auglýsing -

U18 ára landslið kvenna fer á HM – Ekki tilviljun – mjög spennandi

U18 landslið kvenna sem tók þátt í EM í Litáen síðasta sumar. Efsta röð f.v.: Sara Dröfn Richardsdóttir, Hildur Sigurðardóttir, Þóra Börg Stefánsdóttir, Brynja Katrín Benediktsdóttir, Inga Dís Jóhannsdóttir, Aníta Eik Jónsdóttir, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín, Lilja Ágústsdóttir. Miðröð f.v.: Katrín Anna Ásmundsdóttir, Thelma Melsteð Björgvinsdóttir, Elín Klara Þorkelsdóttir, Amelía Dís Einarsdóttir, Embla Steinsdórsdóttir. Fremstar eru, f.v.: Ísabella Schöbel Björnsdóttir og Ingunn María Brynjarsdóttir. Á myndina vantar Tinnu Sigurrós Traustadóttur. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Þetta eru frábærar fréttir enda ekki á hverjum degi sem íslenskt kvennalandslið leikur í lokakeppni HM,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari U18 ára landsliðs kvenna í sjöunda himni í samtali við handbolta.is fyrir stundu eftir að U18 ára landsliði kvenna var boðið að taka þátt í heimsmeistaramótinu sem fram fer í Skopje í Norður Makedóníu í sumar. Mótið stendur yfir frá 30. júlí til 10. ágúst. Boðið var að sjálfsögðu þegið.

Stelpurnar eru að uppskera

Boðið kom óvænt upp en íslenska landsliðið var fyrsta varaþjóð inn á mótið en 32 bestu landslið heims taka þátt í mótinu. Ekki liggur fyrir hvaða þjóð heltist úr lestinni en sennilega er um að ræða Rússland sem hefur verið útilokað frá öllum alþjóðlegum handknattleiksmótum í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu í lok febrúar.

„Þetta er uppskera eftir frábæran árangur hjá stelpunum í B-hluta Evrópumótsins í Litáen í fyrrasumar og forkeppni HM í nóvember. Þær höfnuðu í öðru sæti á báðum mótum, töpuðu aðeins tveimur leikjum og voru hársbreidd frá að vinna mótið. Þess vegna erum við fyrsta varaþjóð,“ sagði Ágúst Þór sem þjálfar U18 ára landslið kvenna ásamt Árna Stefáni Guðjónssyni.

Engin tilviljun

„Liðið okkar er mjög efnilegt og engin tilviljun að það hafi fengið lausa sætið. Það verður spennandi að sjá hvernig okkur gengur á HM næsta sumar, mjög spennandi,“ sagði Ágúst Þór ákveðinn.

HM hópurinn valinn í byrjun júní

Ágúst Þór og Árni Stefán tilkynna leikmannahóp fyrir mótið 7. júní (16 leikmenn og 4 til vara). Æfingar hefjast 17. júlí og reiknað er með að liðið haldi af stað til Norður Makedóníu fimmtudaginn 28. júlí.

Glæsilegar keppnishallir

Leikið verður í Jane Sandanski, keppnishöll Vardar Skopje, og Boris Trajkovski, þjóðarhöll Norður Makedónumanna. Báðar keppnishallir eru í höfuðborginni, Skopje.

Dregið í riðla

Dregið verður í riðla í byrjun júní og má reikna með að leikjaplan verði gefið út fljótlega eftir það.

Fyrsta mótið án harpix – nýr bolti væntanlegur

Á HM U18 ára landsliða verður í fyrsta sinn keppt með nýjum bolta sem á að gera harpix óþarft í handknattleik. Samkvæmt upplýsingum handbolta.is kemur á næstunni stór sending til landsins af boltunum sem leikmenn landsliðsins eiga að nota á æfingum fyrir mótið til að venjast gripnum.


Síðast tók ungmennalandslið Íslands þátt í heimsmeistaramóti ungmenna fyrir fjórum árum. Þá var U20 ára landsliðið með á HM sem fram fór í Ungverjalandi. Þar áður tóku 19 ára liðin þátt á HM U20 ára sem haldið var í Kína.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -