„Ég er gríðarlega ánægður með hversu einbeittar stelpurnar voru frá fyrstu mínútu leiksins. Þær léku á fullum krafti frá upphafi til enda. Þótt andstæðingurinn hafi ekki verið sá sterkasti þá þarf gæði til þess að vinna leik með 24 marka mun. Segja má að fagmennskan hafi verið í fyrirrúmi hjá liðinu í dag,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson í samtali við handbolta.is eftir sigur íslenska landsliðsins á Alsír, 42:18. Með sigrinum innsiglaði íslenska landsliðið sér sæti í milliriðilakeppni 16 efstu liða mótsins.
„Margir leikmenn komu með gott framlag í leikinn í dag. Okkur tókst að rúlla vel á leikmannahópnum og fá góða frammistöðu sem er afar mikilvægt fyrir okkur upp á næstu leiki að gera,“ sagði Ágúst Þór sem er þjálfari íslenska liðsins ásamt Árna Stefáni Guðjónssyni.
Ljóst er að íslenska liðið leikur við Norður Makedóníu eða Íran annað kvöld í milliriðlakeppni HM. Eftir það tekur við frídagur áður en önnur viðureign tekur við á föstudaginn.
„Við erum mjög ánægð með að vera komin taplaus upp úr riðlinum. Stelpurnar hafa spilað virkilega vel.
Nú verðum við að hvíla okkur vel fyrir átökin í milliriðlinum þar sem við mætum landsliðum Íran og Norður Makedóníu. Um er að ræða sterka andstæðinga og ljóst að við þurfum á öllum okkar kröftum að halda til að halda áfram að leika eins vel og við höfum gert fram til þessa. Góð endurheimt í dag og hvíld er lykilatriði fyrir okkur áður en baráttan heldur áfram,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari U18 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is í dag.