Íslenska landsliðið mætir Íran á morgun í fyrstu umferð millriðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 18 ára og yngri. Þetta er ljóst eftir að síðustu leikjum riðlakeppni mótsins lauk fyrir stundu. Flautað verður til leiks klukkan 16.30 á morgun í Boris Trajkovski Sports Center, þjóðarhöll Norður Makedóníu. Á sama stað verður einnig leikið við landslið Norður Makedóníu á föstudaginn.
Íslenska landsliðið vann A-riðil og fer áfram með tvö stig inn í milliriðil sem geta reynst dýrmæt því einn sigur til viðbótar nægir hugsanlega til þess að taka þátt í átta liða úrslitum.
Svíar lögðu Svartfellinga, 29:24, og fylgja íslenska liðinu áfram í milliriðil með Íran og Norður Makedóníu. Síðarnefndu hefja leik með tvö stig eftir að hafa lagt Íran í kvöld, 31:19.
Leikir Íslands í milliriðlakeppninni:
3. ágúst: Ísland – Íran kl. 16.30.
5. ágúst: Ísland – Norður Makedónía, kl. 18.30.
Íslenskur tími.
Leikurinn á morgun verður sá fyrsti sem íslenskt handknattleikslandslið leikur gegn Íran í alþjóðlegri keppni. Lið Írana er í fyrsta sinn með á heimsmeistaramóti yngri landsliða. Mikil gróska hefur verið í handknattleiksíþróttinni, jafnt meðal karla sem kvenna, í Íran á síðustu árum.
Íran vann Senegal og Úsbekistan í B-riðli og náði þar með öðru sæti.
Norður Makedónía hefur unnið allar sínar viðureignir nokkuð örugglega til þessa.