- Auglýsing -
- Auglýsing -

U19: Hefði viljað sjá menn fastari fyrir

Heimir Ríkarðsson þjálfari U18 ára landsliðs karla. Mynd/EHF Kolektiffimages

„Okkur gekk illa að stöðva portúgölsku leikmennina lengi framan af og síðan hikstaði sóknarleikurinn hrikalega hjá okkur framan af síðari hálfleik,“ sagði Heimir Ríkarðsson, þjálfari U19 ára landsliðs karla í samtali við handbolta.is í dag eftir þriggja marka tap, 33:30, fyrir landsliði Portúgal í krossspili um fimmta til áttunda sæti á EM í handknattleik í Króatíu.


„Við vorum bara alltof „soft“ lengi vel í vörninni, bökkuðum undan öllum árásum. Ég hefði viljað sjá menn fastari fyrir, fá fleiri brot og fríköst,“ sagði Heimir og bætti við að varnarleikurinn hafi batnað þegar farið var í 5/1 þegar leið á síðari hálfleik. Þá hafi tekist að rugla taktinn í sóknarleik portúgalska liðsins. Ísland var átta mörkum undir þegar mestu munaði, 25:17.


„Undir lokin áttum við möguleika á að minnka muninn í eitt mark en því miður fórum við illa með þá sókn. Ef við hefðum náð að minnka forskotið niður í eitt mark þá hefði allt getað gerst. Strákarnir voru á fullu en því miður þá féll það ekki með okkur í lokin,“ sagði Heimir ennfremur.

Vel samæft lið


Heimir segir portúgalska liðið vera eitt það besta sem íslenska liðið hafi leikið við í mótinu en þetta var sjötti leikur liðsins á rúmri viku. „Portúgalar hafa verið saman við æfingar í allt sumar og leikið fjölda æfingaleikja, bæði heima og í Frakklandi. Þeir komu því afar vel samspilaðir til mótsins eins og sást vel í þessum leik eins og fleiri hjá þeim í þessu móti.“

Portúgalar skelltu Dönum í fyrradag á sannfærandi hátt, 31:27, og mæta þeim á ný á sunnudaginn í leiknum um 5. sætið.

Nú er að vinna Svía

Niðurstaðan af þessum leik er sú að íslenska liðið leikur við Svía um 7. sætið á sunnudagsmorgun. Verður það annar leikur liðanna á viku en á þriðjudaginn unnu Svíar íslenska liðið, 29:27, í milliriðlakeppninni. „Nú er að taka Svíana í lokaleiknum og ljúka mótinu með bros á vör. Við vorum vonsviknir eftir tapið fyrir þeim á þriðjudaginn og ætlum að bæta fyrir það á sunnudaginn,” sagði Heimir Ríkarðsson, þjálfari U19 ára landsliðsins í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -