- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

U19 í Færeyjum: Mikið betra í dag en í gær – sigur í Vestmanna

Leikmenn U19 ára landsliðsins hefur leik á HM á miðvikudaginn. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Leikurinn var mikið betri hjá okkur í dag en í gær. Alvöru kraftur í vörninni,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U19 ára landsliðsins í samtali við handbolta.is í dag eftir að íslenska liðið vann færeyska jafnaldra sína með þriggja marka mun, 33:30, í síðari vináttuleiknum sem fram fór í Vestmanna í Færeyjum í dag. Færeyingar unnu fyrri viðureignina í gær með þriggja marka mun, 36:33. Staðan var jöfn eftir fyrri hálfleik í dag, 13:13.

Fimm og sex mörkum yfir

„Sigurinn var aldrei í hættu því við vorum með fimm til sex marka forskot nær því allan síðari hálfleikinn. Færeyingum tókst að minnka muninn undir lokin þegar ljóst var orðið að við myndum vinna leikinn,“ sagði Heimir hress í bragði en um síðasta opinbera leik íslenska liðsins var að ræða áður en það fer á heimsmeistaramóti sem hefst í Króatíu í byrjun ágúst. Færeyska liðið tekur einnig þátt í heimsmeistaramótinu.


„Til marks um hvað varnarleikurinn var betri hjá okkur í dag en í gær þá tók það færeyska liðið 45 mínútur í dag að skora jafn mörg mörk og allan fyrri hálfleikinn í gær. Svo má bæta við að dómgæslan í dag var mun betri en í gær,“ bætti Heimir við en í gær var íslenska liðið utan vallar í 16 mínútur en heimamenn í tvær.

Allir leikmenn íslenska liðsins komust heilir í gegnum leikina tvo. Framundan er heimferð og síðasta æfingavikan áður en flogið verður á vit ævintýra heimsmeistaramótsins sem hefst 2. ágúst með leik við sterkt lið Tékka.

Mörk Íslands: Reynir Þór Stefánsson 7, Elmar Erlingsson 6, Hinrik Hugi Heiðarsson 4, Eiður Rafn Valsson 3, Skarphéðinn Ívar Einarsson 3, Ívar Bessi Viðarsson 3, Daníel Örn Guðmunsson 2, Kjartan Þór Júlíusson 2, Birkir Snær Steinsson 2.
Varin skot: Ísak Steinsson 7.

Mörk Færeyja: Óla Jákup Gaard Olsen 8, Óli Mittún 8, Jákup Egholm 3, Trygvi Hávardsson 3, Ísak Vedelsbøl 2, Tóki Fríðriksson 2, Niklas Gaard 1, Rói Seyer Hjaltason 1, Tróndur Johnsson 1, Eyðbjørn Danielsen 1.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -