- Auglýsing -
- Auglýsing -

U19: Ítalir voru kafsigldir í Varazdin

U20 ára landsliðið verður D-riðli á EM í sumar. Hér fagna nokkrir leikmenn U19 ára landsliðsins á EM í sumar sem leið. Mynd/EHF Kolektiff Images
- Auglýsing -

U19 ára landsliðið í handknattleik karla er komið á blað á Evrópumótinu í Króatíu eftir 13 marka stórsigur á Ítalíu, 30:17, í annarri umferð A-riðils keppninnar í dag en leikið var í bænum Varazdin. Eins og úrslitin gefa til kynna þá var íslenska liðið mikið sterkara og rak svo sannarlega af sér slyðruorðið eftir kaflaskiptan leik og tap fyrir Slóvenum í gær.

Mætt til leiks fyrir hádegið. Prýðisveður í Varazdin eins og víða annarstaðar. Mynd/HSÍ


Nokkur beygur var í mönnum fyrir viðureignina í morgun enda hafði ítalska liðið sýnt það í sigurleiknum á Serbum í gær að það væri til alls líklegt. Ítalir komust hinsvegar ekki upp með að sýna sparihliðarnar að þessu sinni.
Næsti leikur Íslands verður á móti Serbum á sunnudaginn. Flautað verður til leiks í Varazdin klukkan 12.30 og verður mögulegt að fylgjast með útsendingu frá viðureigninni án endurgjalda á ehftv.com.

Heimir Ríkarðsson þjálfari gefur síðustu skipanir fyrir leikinn við Ítali. Mynd/HSÍ
Adam Thorstensen var sannarlega með á nótunum í íslenska markinu í dag eins og í gær. Adam varði 17 skot í dag, þar af eitt vítakast. Mynd/EHF Kolektiff Images


Íslenska liðið tók völdin strax í upphafi leiksins. Varnarleikurinn var afar góður auk þess sem Adam Thorstensen var vel með á nótunum í markinu. Ítalir skoruðu aðeins fjögur mörk fyrstu 20 mínútur leiksins. Þeir komust hvorki lönd né strönd. Sóknarleikur Íslands var stirðbusalegur framan af en mönnum óx ásmegin þegar á leið. Staðan að loknum fyrri hálfleik, 12:8, Íslandi í vil.

Hitað upp. Mynd/HSÍ


Ítalska liðið virtist ekki eiga ása upp í erminni þegar síðari hálfleikur hófst. Íslensku strákarnir hertu tökin jafnt og þétt. Þeir voru sex mörkum yfir, 20:14, þegar síðari hálfleikur var hálfnaður. Eftir það hrundi leikur ítalska liðsins og spilaborg. Það virtist alveg vera sama hvað var reynt. Allt fór í skrúfuna hjá þeim. Benedikt Gunnar Óskarsson kom Íslandi 10 mörkum yfir í fyrsta sinn þegar sjö mínútur voru eftir með langskoti í autt mark Ítala sem kallað höfðu markvörð sinn af leikvelli til þess að bæta púðri í sóknarleikinn. Munurinn jókst jafnt og þétt allt til leiksloka.

Einbeittir í langferðabifreiðinni á leið á leikstað. Mynd/HSÍ


Óhætt er að segja að síðasta stundarfjórðung leiksins hafi verið um leik kattarins að músinni að ræða.


Mörk Íslands: Guðmundur Bragi Ástþórsson 6, Þorsteinn Leó Gunnarsson 5, Benedikt Gunnar Óskarsson 4, Kristófer Máni Jónasson 4, Arnór Ísak Haddason 3, Jóhannes Berg Andrason 3, Andri Már Rúnarsson 2, Andri Finnsson 1, Gauti Gunnarsson 1, Símon Michael Guðjónsson 1.

Adam Thorstensen varði 17/1 skot og Brynjar Vignir Sigurjónsson varði eitt skot.

Ekkert fer á milli mála hjá Birni Eiríkssyni. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -