- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

U19: Svekkjandi tap hjá okkur

Árni Stefán Guðjónsson þjálfari leggur línurnar í leikhléi í viðureigninni við Tékka í gær. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Það var svekkjandi tap hjá okkur í kvöld í hörkuleik,“ sagði Árni Stefán Guðjónsson þjálfari U19 ára landsliðs kvenna í handknattleik við handbolta.is eftir eins marks tap íslenska liðsins fyrir Tékkum, 26:25, í fyrri viðureign landsliða þjóðanna í Louny í gær. Íslenska liðið getur svarað fyrir sig í dag þegar síðari leikurinn fer fram og hefst klukkan 17.

Ágætis byrjun

„Byrjunin var ágæt hjá okkur. Frumkvæðið var í okkar höndum. Eftir miðjan fyrri hálfleik þá misstum við Tékkana aðeins fram úr okkur. Tekin voru illa ígrunduð skot í sókninni og fyrir vikið fengum við á okkur hraðaupphlaup sem skiluðu Tékkum mörkum og þrigga marka forskoti í hálfleik.

Meiri ró í síðari hálfleik

Við fórum vel yfir okkar mál í hálfleik sem skilaði sér í meiri ró og yfirvegun í sóknarleiknum. Fyrir vikið lékum við okkur oft í góð færi sem því miður nýttust stundum ekki nógu vel. Það var stóri munurinn á liðunum þegar upp var staðið. Heilt yfir fengum við fína frammistöðu og náðum um leið aðeins að stækka leikmannahópinn sem er eitt markmið okkar með þessu leikjum,“ sagði Árni Stefán og benti m.a. að sterka leikmenn vanti íslenska hópinn að þessu sinni. Tveir eru m.a. að leika með A-landsliðinu um þessar mundir, Elín Klara Þorkelsdóttir og Lilja Ágústsdóttir.

Nýta tímann vel

„Við erum með sextán flotta leikmenn í Tékklandi og margar þeirra fengu stærri hlutverk en áður. Allar stóðu þær sig vel,“ sagði Árni Stefán ennfremur. Hann bætti við að tíminn fram að næsta leik, sem fram fer í dag, verður vel nýttur til þess að bæta leik liðsins. Farið verði yfir upptökur frá viðureigninni í gær og allt lagt í sölurnar.


„Uppleggið verður svipað í síðari leiknum og í þeim fyrri. Það er að rúlla vel á liðinu og fá góða frammistöðu. Þá er aldrei að vita nema við vinnum,“ sagði Árni Stefán Guðjónsson þjálfari U19 ára landsliðs kvenna í handknattleik.


Streymi frá leiknum, sem hefst klukkan 17 í dag, verður aðgengilegt á handbolti.is.

Sjá ennfremur:

Eins marks tap í Louny – annar leikur á morgun

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -