- Auglýsing -
- Auglýsing -

U20: Íslensku piltarnir tóku Króata í kennslustund

Talsverður hluti U20 ára landsliðsins á EM í sumar sem leið er í æfingahópi 21 árs landsliðsins. Mynd/Jónas Árnason
- Auglýsing -

Annan daginn í röð vann íslenska landsliðið, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, 13 marka sigur á Evrópumótinu í handknattleik karla i Porto. Í dag tóku íslensku piltarnir þá króatísku í karphúsið. Lokatölur, 33:20, eftir að sex marka munur var í hálfleik, 16:10. Frábær leikur hjá íslenska liðinu hvar sem litið var, í vörn, sókn og markvarslan var stórbrotin.


Með sigrinum er ljóst að íslenska landsliðið leikur um níunda til tólfta sæti mótsins á föstudag og laugardag. Síðari í dag skýrist hvort andstæðingurinn verður landslið Slóveníu eða Færeyja. Veltur það á úrslitum leiks Svartfellinga og Ítala. Færeyingar unnu Pólverja, 38:32, og verða í öðru sæti í hinum milliriðli neðri hluta keppninnar.


Um leið er ennþá góð von fyrir íslensku piltana að vinna Íslandi keppnisrétt á HM 21 árs landsliða sem fram fer í Grikklandi og Þýskalandi á næsta sumri.
Íslenska liðið þurfti á sigri að halda í dag til þess að vera með í keppninni um níunda til tólfta sæti. Allt annað kom ekki til greina. Það sást á íslensku piltunum frá upphafi leiks í dag. Þeir skoruðu sjö fyrstu mörkin í leiknum, flest eftir að hafa unnið boltann af Króötum í vörninni og skoraði eftir hraðaupphlaup.

Vörnin var frábær og Adam Thorstensen fór hamförum í markinu. Króatar vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Þeir áttuðu sig aldrei á því það sem eftir var leiksins.


Í hálfleik var sex marka munur, 16:10. Íslensku piltarnir héldu uppteknum hætti í byrjun síðari hálfleiks. Þeir skoruðu fimm fyrstu mörkin og náðu 11 marka forskoti. Þar með má segja að úrslitin hafi endanlega verið ráðin. Strákarnir létu þó hné fylgja kviði og náðu mest 15 marka forskoti. Ekki stóð steinn yfir steini hjá Króötum meðan íslensku piltarnir léku við hvern sinn fingur.


Mörk Íslands: Andri Már Rúnarsson 6, Einar Bragi Aðalsteinsson 5, Símon Michael Guðjónsson 5, Tryggvi Þórisson 5, Guðmundur Bragi Ástþórsson 4, Andri Finnsson 2, Benedikt Gunnar Óskarsson 2/1, Ísak Gústafsson 2, Gauti Gunnarsson 1, Kristófer Máni Jónasson 1.

Varin skot: Adam Thorstensen 14, 53,85% – Jón Þórarinn Þorsteinsson 8, 53,85%. – Stórkostlegur leikur hjá báðum markvörðunum.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -