- Auglýsing -
- Auglýsing -

Úlfar Monsi sá um sigurmörkin

Einar Ingi Hrafnsson, Aftureldingu. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Afturelding náði að kreista fram sigur á síðustu hálfu mínútunni gegn nýliðum Þórs Akureyrar að Varmá, 24:22, eftir að jafnt var í hálfleik, 11:11, í annars jöfnum leik.  Úrslitin réðust á síðustu 15 sekúndunum þegar Mosfellingar skoruðu tvö mörk, þar af annað eftir að Þórsurum mistókst að jafna metin þegar fimm sekúndur voru eftir af leiktímanum.

Þórsarar gáfu vængbrotnu liði Aftureldingar hörkuleik að Varmá. Fyrri hálfleikur var í járnum og jafnt í hálfleik, 11:11. Eftir miklar breytingar á leikmannahópi Aftureldingar í sumar þá hafa meiðsli sett stórt strik í reikninginn. Síðast heltist Birkir Benediktsson úr leik í gær þegar hann sleit hásin.  Fleiri eru fjarri um þessar mundir eins og Blær Hinriksson, Guðmundur Árni Ólafsson auk þess sem Þorsteinn Hjálmarsson hefur átt í meiðslum. Hinn síðarnefndi tók þó þátt í leiknum í kvöld en var daufur.

Áfram var jafnt á öllum tölum fram í miðjan síðari hálfleik að Mosfellingar náðu tveggja marka forskoti, 19:17, eftir að hinn ungi Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði tvö mörk með skömmu millibili. Þórsarar létu ekki hug falla og tókst að jafna metin, 19:19. Enn var jafnt fimm mínútum fyrir leikslok, 20:20, eftir að Garðar Már Jónsson jafnaði þegar hann fór inn úr hægra horni.  Áfram var jafnt á öllum tölum. Úlfar Monsi Þórðarson, einn nýrra leikmanna Aftureldingar, kom liðinu yfir úr vítakasti 14 sekúndum fyrir leikslok, vítakasti sem hinn þrautreyndi Einar Ingi Hrafnsson vann. Þórsarar tóku leikhlé og lögðu á ráðin. Út úr því kom að Valþór Atli Guðrúnarson fékk ágætt skotfæri en Arnór Freyr Stefánsson,markvörður Aftureldingar, sá við honum. Úlfar Monsi notaði síðan síðustu sekúndurnar til að tryggja heimamönnum tveggja marka sigur og var mörgum þá létt af þeim sem fylgdust með leiknum að Varmá.

Þórsliðið er nýliði í deildinni og að mestu byggt upp á heimamönnum þótt þar séu innan um og saman við reynslumenn eins Garðar Már og Valþór Atli. Einnig er Karlis Stropus innan raða Þórsliðsins. Hann lék með Aftureldingu í fyrra en hefur áður verið nyrðra, lék um skeið með Akureyri handboltafélagi.  Úkraínumaðurinn Ihor Koyshynskyi hefur verið á Akureyri um árabil, fyrst með fyrrgreindu Akureyrarfélagi en síðustu ár með Þór.  Leikmenn liðsins eru ekki allir algjörir nýliðar í deildinni.

Akureyringurinn Bergvin Þór Gíslason skoraði sex mörk fyrir Aftureldingu og var markahæstur. Þorsteinn Leó og Úlfar Monsi skoruðu fimm mörk hvor.

Koyshynskyi var atkvæðamestur Þórsara með átta mörk og Garðar Már skoraði fimm.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -