- Auglýsing -
- Auglýsing -

Um er að ræða lærdóm á hverjum degi

Guðjón Valur Sigurðsson þjálfari þýska handknattleiksliðsins Gummersbach. Mynd/Vfl Gummersbach, Facebook
- Auglýsing -

„Ég hef virkilega gaman af þessu. Þjálfarastarfið hefur uppfyllt mínar væntingar og rúmlega það,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, þjálfari þýska handknattleiksliðsins Gummersbach, er handbolti.is sló á þráðinn til hans í gær. Rúmt ár er síðan Guðjón Valur tók við þjálfun Gummersbach eftir að hafa hætt að starfa sem leikmaður eftir langan og einstaklega glæsilegan feril.


„Í þessu starfi líkt og þegar maður var leikmaður þá vill maður alltaf gera sitt besta. Manni dettur eitt og annað í hug eftir á að hyggja. Ég reyni að nýta tímann til þess að læra á liðið og sjálfan mig. Finna hvað hentar lífinu best. Hér um að ræða lærdóm á hverjum degi sem ég hef mjög gaman af,“ svaraði Guðjón Valur spurður hvernig gangi að aðlagast nýju hlutverki, þ.e. að vera hinum megin við hliðarlínu vallarins.

Áfram í toppbaráttu

Gummersbach var hársbreidd frá því að fara upp úr 2. deild í vor á fyrsta tímabilinu með Guðjón Val við stjórnvölin. Hann segir að áfram verði takmarkið að vera í toppbaráttu deildarinnar.

„Við höfum styrkt okkur frá síðasta tímabili en um leið þá er deildin orðin sterkari. Fjögur lið komu niður í deildina úr fyrstu deild en tvö fóru upp í vor. Liðin fjögur sem komu inn í deildina úr fyrstu deild eru líklegust til þess að berjast um sætin tvö,“ sagði Guðjón Valur sem telur að Gummersbach hefði átt möguleika á að gera betur á síðustu leiktíð en raun varð á.

Dýrt að missa Elliða Snæ

„Það var okkur dýrt að Elliði Snær [Viðarsson] var frá keppni í sex til átta vikur og aðal vinstri skyttan okkar var úr leik í tíu vikur. Okkur tókst ekki að fylla upp í þeirra skörð.


Núna erum við með mun breiðari hóp en deildin er mikið sterkari en á síðasta tímabili. Þar af leiðandi verður keppnin erfiðari en afar skemmtileg. Við hlökkum til,“ sagði Guðjón Valur. Fyrsti leikur Gummersbach verður á heimavelli 14. september gegn Lübeck-Schwartau sem var á meðal efstu liðanna á síðasta keppnistímabili.

Eftirvænting ríkir

Eftirvænting ríkir meðal handknattleiksfólks að leika á ný fyrir framan áhorfendur sem máttu ekki mæta á leiki á síðasta ári. „Vonandi verður það þannig. Maður veit að það getur brugðið til beggja vona í þeim efnum. Eins hefur verið dregið úr tíðni veiruprófa hjá okkur á meðal leikmanna og þjálfara. Á síðasta keppnistímabili þurftum við gangast undir sýnatöku tvisvar til þrisvar í viku. Nú þarf þess ekki lengur sem einnig er mjög jákvætt.“

Lítum ágætlega út

Guðjón Valur segir að undirbúningur fyrir tímabilið hafi gengið vel. „Við byrjuðum frekar stíft. Síðustu vikur höfum við leikið talsvert af æfingaleikjum auk þess sem við tókum þátt í fyrstu umferð bikarkeppninnar um síðustu helgi og komumst áfram í aðra umferð. Við lítum ágætlega út í augnablikinu,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, þjálfari Gummersbach í Þýskalandi, í samtali við handbolta.is í gær.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -