„Út með þig, eða ég sparka þér út!“ öskraði Oleksandr Hladun framkvæmastjóri handknattleikssambands Úkraínu við landa sinn, Igor Grachov blaðamann, eftir viðureign Úkraínu og Þýskalands á Evrópumóti kvenna í handknattleik í Innsbruck á dögunum. Hladun hafði þá bannað leikmönnum landsliðsins að ræða við Grachov. Reyndar hefur bannið staðið síðan á HM fyrir ári en þá þótti blaðamaðurinn hafa tekið of djúpt í árinni í gagnrýni sinni á leik landsliðsins.
Enn alvarlegri hótanir
Ekki var samskiptum framkvæmdastjórans og blaðamannsins alveg lokið með fyrirgreindum hótunum því eftir að starfsmaður Handknattleikssambands Evrópu skarst í leikinn og ætlaði að bera klæði á vopnin bætti framkvæmdstjórinn gráu ofan á svart þegar hann hótaði blaðamanninum og sagði: „Búðu þig undir það versta!“
Ekki sagt í stundarbræði
Ljóst er að hótarnir Hladun framkvæmdastjóra voru ekki settar fram í stundarbræði því nokkrum dögum eftir hótanirnar staðfesti hann í samtali við formann samtaka íþróttafréttamanna í Úkraínu að hann hafi látið þetta út úr sér og stæði við hvert orð.
Igor Grachov var eini blaðamaðurinn frá Úkraínu sem fylgdi liðinu á Evrópumótið hvar það tapað öllum viðureignum sínum þremur, þar á meðal gegn Íslandi.
Gagnrýni er ekki glæpur
Málið rataði inn á borð AIPS, alþjóða samtaka íþróttafréttamanna, og frá sagt í fréttbréfi AIPS. Samtökin fordæma hótanir og minnir á mikilvægi frjálsrar umræðu. Gagnrýni er ekki glæpur, segir AIPS í yfirlýsingu sinni.