- Auglýsing -
- Auglýsing -

Væri rosalega gaman að komast í undanúrslit

Einn fyrir alla og allir fyrir einn. Piltarnir í u18 ára landsliðinu á æfingu í Podgorica í gær. Ljósmynd/MKJ
- Auglýsing -

„Okkar markmið er aðeins eitt og það er sigur á Norðmönnum og ná sæti í undanúrslitum,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfari U18 ára landsliðs karla í samtali við handbolti.is í gærkvöld.

Klukkan 12.30 í dag hefst síðasta viðureign íslenska landsliðsins í riðlakeppni átta liða úrslita Evrópumótsins í handknattleik sem staðið hefur yfir í Podgorica í Svartfjallalandi frá 7. ágúst. Leikið verður gegn Noregi. Eins og staðan er þegar þessi orð eru rituð að morgni dags þá þarf íslenska liðið á sigri að halda til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Evrópumótsins.

Norðmenn eru út úr myndinni í kapphlaupinu um undanúrslitasæti en Svíar geta sett strik í reikninginn takist þeim að leggja Spánverja í leik sem hefst klukkan 10. Spænska liðið er öruggt um sæti í undanúrslitum.

Í hinum riðli átta liða úrslita eiga Ungverjar sæti víst í undanúrslitum. Danir og Serbar kljást um hitt sætið. Þjóðverjar eru úr leik eftir tvo tapleiki eins og Norðmenn í hinum riðlinum. Noregur og Þýskaland leika um sæti fimm til átta. 
Sjá einnig: EMU18 karla: Leikir, úrslit og staðan, milliriðlar og sætisleikir
Parekur Jóhannesson annar þjálfari U18 ára landsliðsins fór yfir málin með piltunum á fundi í gær. Ljósmynd/MKJ

Vita hvað þarf til

„Við vitum hver staðan verður þegar við förum í leikinn við Norðmenn því leikur Spánverja og Svía verður þá lokið. Hvernig sem sú viðureign fer þá munum við fara af fullum þunga í viðureignina við Noreg. Það væri rosalega gaman að komast í undanúrslit,“ sagði Heimir sem ásamt Patreki Jóhannessyni hinum þjálfara liðsins hefur reynt að vanda undirbúning fyrir leikinn við Norðmenn eins og kostur er á.

Íslensku leikmennirnir sextán sem eru ytra er heilir heilsu og klárir í slaginn eftir að hafa átt frídag frá kappleikjum í gær. „Við tókum létta æfingu og funduðum auk þess sem strákarnir hugsuðu vel um sig til þess að vera upp á sitt besta þegar á hólminn verður komið,“ sagði Heimir ennfremur.

„Við verðum að fylgja eftir mjög góðum leik við Svía í fyrstu umferð átta liða úrslita og flottum 45 til 50 mínútum gegn Spáni,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfari U18 ára landsliðsins.

Handbolti.is verður með textalýsingu frá viðureign Íslands og Noregs eins og öðrum leikjum íslenska landsliðsins á Evrópumótinu fram til þessa. Leikurinn hefst klukkan 12.30 en textalýsingin fer í loftið nokkru áður.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -