- Auglýsing -
- Auglýsing -

Í landsliðið með slitið krossband

Saga Sif Gísladóttir kemur inn í íslenska landsliðið í dag gegn Svíum í stað Hafdísar Renötudóttur.Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég er valin í landsliðshóp en það hefur lengi verið markmiðið og því er ég í sjöunda himni og er alveg tilbúin í verkefnið,“ segir Saga Sif Gísladóttir, markvörður Vals, sem valin var í íslenska landsliðið í handknattleik í vikunni.

Frammistaða Sögu Sifjar hefur verið stórbrotin í fyrstu leikjum tímabilsins og er enn magnaðri í ljósi þess að hún leikur núna með slitið krossband í öðru hné.  Þetta er í þriðja sinn sem hún slitur krossband í hné. Margir sem lent hafa í slíkum hremmingum hafa hreinlega lagt árar í bát en Saga Sif er ekki ein þeirra.

Hætti í handbolta um skeið

„Ég fór ekki í aðgerð við þriðja slit því svo stutt var frá síðustu aðgerð. Ég hætti í handbolta og byrjaði í crossfit og af einhverjum ástæðum fann ég ekki fyrir hnénu. Nokkrum mánuðum seinna höfðu Haukar samband við mig og ég ákvað að prófa æfingu og gekk það vonum framar og gengið hefur vel síðan. Ég myndi aldrei mæla með að fólk færi ekki í aðgerð þar sem ég er markmaður og er ekki í mikilum contact á æfingum og svo eru meiðslin öll mismunandi. Ég legg mikið á mig aukalega svo að ég geti spilað og æft þessa íþrótt sem ég elska og vonandi get ég gert það lengi,“ segir dugnaðarforkurinn Saga Sif ákveðin.

Byrjaði hjá FH

Saga Sif er 25 ára gömul og byrjaði handboltaferilinn hjá FH en skipti þaðan yfir til Fjölnis og lék með Grafarvogsliðinu um skeið í Olísdeildinni. Fyrir tveimur árum flutti hún sig á ný til Hafnarfjarðar og valdi þá erkifjendur FH-inga, Hauka. 

„Ég átti tvö frábær ár hjá Haukum en get ekki neitað því að það var spennandi að eiga þess kost að ganga til liðs við Val. Hér er frábært lið með mörgum nýjum leikmönnum. Enn betra er hvað við höfum náð að smella vel saman frá byrjun,“ segir Saga Sif en Valsliðið hefur unnið tvær fyrstu viðureignir sínar í Olísdeildinni, þar á meðal toppslaginn við Fram á föstudagskvöldið þar sem Saga Sif fór hreinlega hamförum í markinu.  „Veturinn verður spennandi,“ sagði hún sposk á svip.

Tilbúin í verkefnið

Saga Sif segir það hvetja sig enn meira til dáða að vera valin í landsliðið. „Ég hef aðeins fengið nasaþefinn og verið valin í nokkur skipti í stærri hópa og í æfingabúðir en núna er loksins komið að þessu. Ég er alveg tilbúin í verkefnið og vonast þannig til að geta stimplað mig inn í hópinn fyrir verkefnin sem framundan eru,“ segir Saga Sif og horfir þar væntanlega m.a. til leikjanna í forkeppni heimsmeistaramótsins sem til stendur að háðir verði snemma í desember.

 „Ég hef æft lengi og mikið með það að markmiði að komast í landsliðið,“ segir hin metnaðarfulla og harðduglega Saga Sif Gísladóttir, markvörður Vals og gangi allt að óskum einnig markvörður íslenska landsliðsins.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -