- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valsliðið lék við hvern sinn fingur

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir í leik með Val fyrir nokkrum árum. Mynd/Valur
- Auglýsing -

Valur tók forystuna í einvíginu við Fram með öruggum sex marka sigri, 28:22, í Framhúsinu í dag í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Olísdeildar kvenna í handknattleik. Valsiðið hitti svo sannarlega á góðan dag og segja má að leikmenn liðsins hafi lengst af leikið við hvern sinn fingur.

Næsti leikur liðanna verður í Origohöllinni á miðvikudagskvöld klukkan 19.30. Þá verður Fram að vinna til að halda lífi í einvíginu. Valur var fjórum mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 15:11.
adrotate banner=”57″]
Eftir jafnvægi á milli liðanna fyrsta stundarfjórðunginn tók Valsliðið af skarið og komst yfir og bætti jafnt og þétt við forskotið hálfleikinn á enda. Sóknarleikur Fram varð passívari þegar á leið hálfleikinn gegn 5/1 vörn Valsara. Hik var í sendingum sem aldrei kann góðri lukku að stýra. Til marks um það þá skoraði Fram aðeins þrjú mörk á síðari 15 mínútum fyrri hálfleiks og alls 11 í hálfleiknum öllum sem er talsvert frá því sem skal venjast af því mikla sóknarliði. Markarvarslan var einnig vart merkjanleg meðan meira líf var í markvörðum Vals.


Valur var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 15:11, og hefði hæglega getað bætt við marki í lokin en síðasta sókn liðsins var hreinlega óskiljanleg. Leikmenn sendu sín á milli í 17 sekúndur þar til leiktíminn var úti.


Fram tókst að minnka muninn í tvö mörk, 17:15, þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Nær komst liðið ekki. Valur lagði meira í varnarleikinn auk þess sem fjögur mörk með langskotum í röð frá Thea Imani Sturludóttur juku forskot Vals enn meira. Murinn varð átta mörk þegar um átta mínútur voru til leiksloka og ljóst að Hlíðarendaliðið var að fara með sigur í farteskinu heim fyrir annan leik liðanna á miðvikudag.


Framliðið var ekki líkt því sem það á að sér að vera. Sóknarleikurinn var aldrei góður og liðið fékk fá hraðaupphlaup en á því hefur það oft þrifist. Varnarleikurinn var ekki eins og hann er bestur og markvarslan nánast engin.


Valsliðið var drifið áfram af Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur í vörninni en áratugur er síðan hún stóð í stafni Valsliðsins og varð Íslandsmeistari eftir leiki við Fram, síðast í Safamýri. Það er styrkur fyrir yngri leikmenn að hafa slíkan reynslubolta með sér í liði. Lovísa Thompson stýrir sóknarleiknum og fórst það afar vel úr hendi. Hún lék einnig stórt hlutverk fremst í 5/1 vörninni. Fleiri lögðu í sóknarleikinn og ekki munaði hvað síst um frábæran leik Theu Imani. Hún skoraði níu mörk og geislaði af sjálfstrausti.


Mörk Fram: Ragnheiður Júlíusdóttir 7, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Karen Knútsdóttir 3, Unnur Ómarsdóttir 3, Harpa María Friðgeirsdóttir 2, Guðrún Erla Bjarnadóttir 1, Stella Sigurðardóttir 1, Jónína Hlín Hansdóttir 1, Lena Margrét Valdimarsdóttir 1.
Mörk Vals: Thea Imani Sturludóttir 9, Lovísa Thompson 7, Elín Rósa Magnúsdóttir 6, Auður Ester Gestsdóttir 3, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 1, Mariam Eradze 1, Lilja Ágústsdóttir 1.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -