Íslandsmeistarar Vals stefna á að leika gegn króatíska liðinu RK Porec í 1. umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik að því tilskyldu að allir þeir sem nú eru í sóttkví reynist neikvæðir við skimun á morgun. Þetta staðfestir Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, við vísir.is í dag.
Til stóð að Valur mætti Porec á morgun og á laugardaginn ytra. Hætt varð við ferðina eftir að þrjú kórónuveirusmit komu upp innan herbúða Íslandsmeistaranna á sunnudaginn. Aðrir í hópnum reyndust neikvæðir við skimun á mánudag en eru í sóttkví þangað til á morgun.
„Á morgun fara allir í próf og að því gefnu að allir fái neikvætt úr því byrjum við bara að æfa, og undirbúa okkur fyrir þessa leiki og þrumum okkur svo í þetta,” segir Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals í samtali við Vísir og átti við Króatíuferðina.