- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Valsmenn unnu verðskuldað“

Aron Kristjánsson hættir þjálfun Hauka í lok leiktíðar. Mynd/Björgvin Franz
- Auglýsing -

„Það er rosalega súrt að tapa eftir það sem á undan er gengið,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari deildarmeistara Hauka, eftir tap fyrir Val í úrslitum Íslandsmótsins í handknattleik í gærkvöld á heimavelli. Haukar töpuðu báðum leikjunum fyrir Val. Eftir frábært tímabil þá tókst Haukum ekki að töfra fram sínar bestu hliðar þegar mest á reyndi. Kom þar eitt og annað til, m.a. meiðsli sterkra leikmanna á sama tíma og Valsmenn voru með sína vöskustu sveit klára í slaginn.

Vörn og markvarsla brást

„Varnarleikurinn og markvarslan brást okkur að stórum hluta í þessu einvígi til viðbótar sem við fórum illa með mörg góð færi í leiknum í kvöld. Eins var nokkuð um slæmar sendingar og að menn væru að stinga niður boltanum of nærri vörn Valsmanna,” sagði Aron.


„Við vorum þremur mörkum undir þegar leikurinn hófst sem var ekkert stórmál í mínum huga. En þegar við bættist að við lendum fljótlega þremur mörkum undir þá urðu menn fyrir ákveðnu áfalli sem fór í hausinn á þeim. Í seinni hálfleik þá áttum við þess kost að gera leik úr öllu saman. Okkur tókst að minnka muninn í eitt mark en þá komu tvær sóknir þar sem við klúðrum línufæri og hraðaupphlaupi. Á þessum tíma var möguleiki af okkar hálfu að gera leik úr þessu en því miður þá tókst það ekki,“ sagði Aron en lið hans lék 15 leiki í röð án taps en þrjár síðustu viðureignirnar töpuðust.

Möguleikunum fækkaði

„Það var slæmt fyrir okkur að missa Stefán Rafn og Brynjólf úr leik okkar þegar mest á reyndi. Báðir eru þeir alla jafna byrjunarliðsmenn. Fjarvera þeirra fækkaði möguleikum okkar,“ sagði Aron.


„Tímabilið hefur verið mjög skrítið og erfitt. Við, eins og aðrir þurftum sífellt að vera draga úr og hætta æfingum eða þá byrja aftur. Svo lendum við í áföllum á síðustu dögunum þegar komið er fram í miðjan júní. Í þessu Evrópukeppnisfyrirkomulagi þá má ekkert út af bregða, menn mega helst ekki tapa leik. Einn lélegur hálfleikur fór með tímabilið hjá okkur.


Valsmenn unnu verðskuldað. Þeir voru betri í þessu einvígi,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, í samtali við handbolta.is að leikslokum í Schenkerhöllinni í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -