- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valssigur í frábærum handboltaleik

Einar Örn Sindrason skoraði jöfnunarmark FH á síðustu sekúndu. Mynd/ J.L.Long
- Auglýsing -

Valur vann stórleik fyrstu umferðar Olísdeildar karla í dag þegar þeir sóttu FH-inga heim í Kaplakrika, 33:30, eftir að hafa verið marki undir í hálfleik, 15:14. Þetta var alvöru handboltaleikur, bæði skemmtilegur og afar vel leikinn af hálfu beggja liða, ekki síst miðað við árstíma.

FH-ingar voru sterkari í fyrri hálfleik. Varnarleikurinn var lengst af góður og Phil Döhler markvörður stóð vaktina af athygli. Munurinn var tvö til þrjú mörk lengst af. Skömmu fyrir hálfleik var FH þremur mörkum yfir, 13:10, og gat aukið forskot sitt. Það tókst ekki og m.a. fóru tvö vítaköst forgörðum á þessum tíma. Valsmenn voru skrefi á eftir létu ekki bjóða sér það tvisvar að eiga þess kost að komast inn í leikinn á ný og þegar flautað var til hálfleiks var munurinn kominn í eitt mark, 15:14, FH í vil.

Þorgils Jón Svölu Baldursson, Valsari, með boltann í hörðum slag við Ásbjörn Friðriksson, FH-ing. Egill Magnússon, Ágúst Birgisson, FH-ingar og Róbert Aron Hostert, Valsmaður, fylgjast grannt með framvinunni auk Phil Döhler, markvarðar FH. Mynd/Jóhannes Long

Valsmenn komu mikið ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og ekki voru liðnar nema sex mínútur þegar þeir voru komnir tveimur mörkum yfir, 20:18.

Áfram var jafnvægi í leiknum og markverðir beggja liða voru atkvæðamiklir, Döhler hjá FH og Einar Baldvin Baldvinsson í Valsmarkinu.

Tíu mínútum fyrir leikslok var Valur kominn með þriggja marka forskot, 25:22. Valsmenn héldu forskoti sínu. Tumi Steinn Rúnarsson kom Val þremur mörkum yfir, 31:28, þegar rúm mínúta var til leiksloka. Segja má að markið hafi innsiglað sigurinn.

Potturinn og pannan

Magnús Óli Magnússon og Róbert Aron Hostert voru potturinn og pannan í sóknarleik Vals sem lék hraðan og agaðan sóknarleik lengst af. Ljóst er að haldi Magnús Óli áfram á sömu braut og í dag verður hann mörgum liðum erfiður á tímabilinu. Hann skoraði nokkuð af mörkum en var arkitektinn á bak við þau enn fleiri. Róbert Aron var einnig mjög skapandi eins og hans er von og vísa.

Allt annað var að sjá til Valsliðsins en í leiknum við ÍBV í Meistarakeppni HSÍ á sunnudagskvöldið. Finnur Ingi Stefánsson átti einnig mjög góðan leik og var með nærri fullkomna skotnýtingu í hægra horni.

Ágúst Birgisson, línumaðurinn sterki hjá FH. Alexander Örn Júlíusson og Finnur Ingi Stefánsson, Valsarar, í bakgrunni. Mynd/Jóhannes Long

Ásbjörn var allt í öllu

Sem fyrr er Ásbjörn Friðriksson allt í öllu í sóknarleik FH. Hann skoraði að vild og skapaði mörg færi fyrir samherja sína. Með Ásbjörn í þessu formi verður FH-liðið illviðráðanlegt á leiktíðinni.

Gleðilegt var að sjá Egil Magnússon á handknattleiksvellinum aftur og það á fullum krafti. Meiðsli hafa sett strik í reikning hans um árabil og lék hann lítið með FH á síðustu leiktíð af þeim sökum. Vonandi er farið að sjá fyrir endann á því tímabili á ferli þessarar ágætu ungu skyttu.

Hornamaðurinn Arnar Freyr Ársælsson lék ekki með FH að þessu sinni fremur en á Hafnarfjarðarmótinu á dögunum. Hann er frá vegna meiðsla. Vonir standa til að hann geti verið með í næsta leik FH í Olísdeildinni, gegn Þór Akureyri nyrðra á fimmtudagskvöld.

Leikurinn var á heildina litið mjög góður, ekki síst í ljósi þess að um er að ræða fyrsta leik liðanna á tímabilinu og að hálft ár er síðan að bæði lið léku alvöru keppnisleik. Besti leikur umferðarinnar ásamt viðureign Stjörnunnar og Selfoss í gær.

Róbert Aron Hostert og Þorgils Jón Svölu Baldusson horfa á eftir boltanum að marki sínu.
Mynd/Jóhannes Long

Ásbjörn og Finnur markahæstir

Ásbjörn Friðriksson skoraði níu mörk fyrir FH og var markhæstur. Ágúst Birgisson skoraði fimm og Egill Magnússon og Jakob Martin Ásgeirsson fjögur mörk hvor.

Döhler varði 15 skot í marki FH, 31,3% hlutfallsmarkvarsla.

Finnur Ingi Stefánsson var markahæstur hjá Val með sjö mörk. Magnús Óli Magnússon skoraði sex, Vignir Stefánsson fimm og Þorgils Jón Svölu- Baldursson fjögur.

Einar Baldvin Baldvinsson varði 12 skot, 29,3% hlutfallsmarkvarsla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -