- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur fer beint í Evrópudeildina – Risastórt fyrir okkur

Íslandsmeistarar Vals í handknattleik karla 2022 taka þátt í Evrópudeildinni á komandi vetri. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Íslands- og bikarmeistarar Vals fá sæti í Evrópudeildinni í handknattleik karla á næstu leiktíð. Þeir hlaupa yfir undankeppnina og fara beint í riðlakeppnina sem hefst 25. október og stendur yfir til 28. febrúar í fjórum riðlum með sex liðum í hverjum. Framundan eru þar með fimm heimaleikir og fimm viðureignir á útivelli gegn mörgum af sterkustu félagsliðum Evrópu. Flest meistaralið í Evrópu taka þátt í Evrópudeildinni sem er sú næst sterkasta í Evrópu á eftir Meistaradeildinni.

Frábært fyrir handboltann á Íslandi

„Þetta er geggjað fyrir strákana og fyrir mig sem þjálfara og bara frábært fyrir handboltann á Íslandi að okkur standi þetta stóra tækifæri til boða. Mér finnst þetta vera risastórt fyrir okkur,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Íslands- og bikarmeistara Vals í samtali við handbolta.is eftir að ákvörðun Handknattleikssambands Evrópu, EHF, lá fyrir í morgun.

Reiknuðu með undankeppni

Valur sótti um þátttöku í keppninni eins og í fyrra. Forráðamenn Vals reiknuðu með að fá sæti í undankeppninni. Þess í stað sendi EHF fyrirspurn til Vals og HSÍ hvort félagið treysti sér ekki til þess að fara beint í riðlakeppnina. Staða Íslands á styrkleikalista EHF væri orðin það sterk að það verðskuldaði sæti í deildinni. Skemmst er frá því að segja að Valsmenn sendu jákvætt svar til baka enda stendur tækifæri sem þetta ekki íslenskum liðum til boða á hverju tímabili.

Telja má fullvíst að um sé að ræða stærsta verkefni sem íslenskt félagslið hefur verið með í á vettvangi Evrópukeppni félagsliða síðan Haukar voru síðast með í Meistaradeild Evrópu keppnistímabilið 2008/2009.

Blundaði í mér að gera atlögu

„Það blundaði alltaf í mér eftir leikina við Lemgo í fyrra að það gæti orðið áhugavert fyrir okkur að komast í deildarkeppnina en það var hægara sagt en gert enda nokkrir áfangar á leiðinni í undankeppninni eins og við fengum að reyna í fyrra. Mig langaði að gera atlögu að því að komast beint í riðlakeppni Evrópudeildarinnar þótt ég hafi ekki átt von á að staða okkar væri orðin svo góð að við gætum komst í eitt af þeim sætum sem eru frátekin í riðlakeppninni og komast þar með hjá undankeppninni. Svo að þegar boðið barst frá EHF þá sló ég svo sannarlega ekki hendinni á móti því,“ sagði Snorri Steinn sem er skiljanlega afar ánægður með þá miklu áskorun sem bíður hans og leikmanna Vals sem hann segir einnig vera mikinn heiður fyrir Val og íslenskan handknattleik.

Alls taka 24 lið þátt í Evrópudeildinni sem fyrst var sett á laggirnar leiktíðina 2020/2021. Að uppistöðu til er að ræða meistaralið frá Evrópulöndum að þeim undanskildum sem taka þátt í Meistaradeildarkeppni Evrópu.

Miklar kröfur eru gerðar til liðanna, utan vallar sem innan.

Eftir þriggja umferða undankeppni verður lokið verður dregið í riðla í lok september eða í byrjun október. Sex lið verða í fjórum riðlum. Leikið er heima og að heiman, alls tíu leikir.

Keppni stendur yfir frá síðla í október og fram í lok febrúar. Fjögur lið komast áfram úr hverjum riðli í sextán liða úrslit. Eftir það er leikið í útsláttarkeppni þangað til að komið er að úrslitahelgi með fjórum bestu liðunum síðla í maí.

Benfica vann Magdeburg í framlengdum úrslitaleik í vor. Magdeburg vann keppnina vorið 2021.

Áskorun fyrir allt félagið

„Það verður gaman en jafnframt mikil áskorun fyrir okkur að takast á við leikjaálagið sem þessu fylgir. Við verðum að sjá til hvert þetta mun leiða okkur. En þetta er risastórt,“ sagði Snorri Steinn og bætti við að um stórt verkefni væri að ræða fyrir félagið í heild að taka á við þátttöku í deildinni. Kröfurnar væru miklar frá EHF í umgjörð heimaleikjanna auk þess sem þátttakan væri mjög kostnaðarsöm. Talið er að kostnaðurinn hlaupi á tugum milljóna og tekjurnar að sama skapi ekki eins miklar frekar en af annarri þátttöku í Evrópukeppni í handknattleik. Snorri Steinn sagði ljóst að allir yrðu að leggjast á árar til að standa undir þátttökunni.

Hlakkar til að bragða á

„Þótt tímabilið sé alls ekki byrjað þá má svo sannarlega segja að komið sé mjög gott krydd í það sem allir hlakka til þess að bragða á,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, Íslands- og bikarmeistara tveggja síðustu ára.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -