- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur fór upp að hlið meistaranna

Thea Imani Sturludóttir, verður væntanlega í eldlínunni með Val í kvöld gegn Stjörnunni. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Valur fór upp að hlið KA/Þórs í efsta sæti Olísdeildar kvenna í dag með sigri á HK í Kórnum, 23:17. Ef undan eru skildar fyrstu tíu mínúturnar eða þar um bil var Valsliðið með yfirhöndina í leiknum. Munurinn var þrjú mörk að loknum fyrri hálfleik, 12:9. Næsti leikur Vals verður við Fram í undanúrslitum Coca Cola-bikarsins á fimmtudaginn. HK er komið í þriggja vikna hlé frá kappleikjum vegna bikarhelginarinnar og landsleikjaviku í upphafi októbermánaðar.


HK var með yfirhöndina, 5:3, eftir tíu mínútur. Eftir það og fram að hálfleik datt allur botn úr sóknarleik liðsins með þeim afleiðingum að aðeins rataði boltinn fjórum sinnum í mark Vals á þeim 20 mínútum sem liðu fram að hálfleik. Sterk vörn Vals reyndist ungu liði HK erfið raun að fást við. Staðan í hálfleik var 12:9.


HK skoraði tvö fyrstu mörk síðari hálfleiks og virtist ætla að hleypa spennu í leikinn. Mörkin tvö voru skammgóður vermir. Valsmenn náðu á ný tveggja til fjögurra marka forskoti þótt þeir hafi einnig átt á tíðum erfitt uppdráttar gegn góðri vörn HK-liðsins.


Undir lokin leystist leikurinn aðeins upp og þess vegna var munurinn meiri þegar leiktíminn var úti og gefur því ekki skýra mynd af þróun hans.
Varnarleikur beggja liða var góður. Valur með sína 6/0 vörn en HK lék 5/1 með Elnu Ólöfu Guðjónsdóttur sem fremsta mann. Vörnin gaf Theu Imani Sturludóttur, Valsara, tækifæri til að leika lausum hala. Hún nýtti tækifærið skorað níu mörk í 11 skotum auk þriggja stoðsendinga. Thea var maður leiksins.


Mörk HK: Tinna Sól Björgvinsdóttir 5, Elna Ólöf Guðjónsdóttir 4, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 4/1, Þóra María Sigurjónsdóttir 3, Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir 1.
Varin skot: Margrét Ýr Björnsdóttir 10, 30,3%.
Mörk Vals: Thea Imani Sturludóttir 9, Hildigunnur Einarsdóttir 4, Lilja Ágústsdóttir 3, Íris Ásta Pétursdóttir 3, Lovísa Thompson 2, Mariam Eradze 2.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 9, 37.5% – Saga Sif Gísladóttir 1, 33,3%.

Staðan og næstu leikir í Olísdeild kvenna er hér.

Fylgst var með leiknum í textalýsingu á handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -