- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur Íslandsmeistari í 23. sinn

Íslandsmeistarar Vals í handknattleik karla 2021. Mynd/Björgvin Franz
- Auglýsing -

Valur er Íslandsmeistari í handknattleik karla 2021 eftir að hafa lagt deildarmeistara Hauka í tveggja leikja rimmu, samtals 66:58, þar af 34:29 í þeirri seinni í kvöld í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í Hafnarfirði. Valur vann báða leiki liðanna og unnu svo sannarlega verðskuldaðan sigur í kvöld eftir að hafa verið með öll ráð í hendi sér frá upphafi leiksins. Þriggja marka munur var í hálfleik, 18:15, Val í vil.


Haukar voru bestir í deildarkeppninni en tókst ekki að sýna sama styrk í úrslitakeppninni, öfugt við Valsliðið sem óx með hverri raun og tókst að toppa á hárréttum tíma.


Þetta er í 23. sinn sem Valur verður Íslandsmeistari í handknattleik, síðast fyrir fjórum árum. Um leið er þetta í fyrsta sinn sem Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Valsara vinnur Íslandsmeistaratitilinn.

Valsliðið virtist koma mikið betur stillt til leiks. Grimm vörnin virtist slá Hauka út af laginu. Sóknarleikurinn gekk einnig glimrandi vel hjá Val. Liðið fékk mark úr flestum sóknum fyrsta stundarfjórðunginn meðan leikmenn Hauka voru í mesta basli og gerðu mörg einföld mistök eins og að boltinn rataði illa á milli samherja.
Aron Kristjánsson þjálfari Hauka var tilneyddur til að taka leikhlé eftir aðeins fimm mínútur til að róa menn því þeir voru þá þegar þremur mörkum undir, 4:1. Róbert Aron Hostert fór mikinn í byrjun og átti þátt í fjórum af fyrstu fimm mörkum Valsara.
Valur var með allt upp í fjögurra marka forystu. Haukar unnu sig hægt og bítandi inn leikinn af yfirvegun. Þeir áttu þess kost að minnka muninn í eitt mark í tvígang á síðasta þriðjungi fyrri hálfleiks, en lánaðist ekki að færa sér stöðuna í nyt. Ákveðin vörn Valsara var mjög góð þar sem afar vel tókst til við að loka fyrir línuspilið. Valur var með sanngjarnt þriggja marka forskot þegar fyrri hálfleikur var á enda, 18:15, og samtals sex mörk þegar úrslit fyrri leiksins voru tekin með í reikninginn.
Leikmenn Hauka náðu að minnka muninn í eitt mark, 20:19, snemma í síðari hálfleik. Nær komust þeir ekki. Valsmenn marseruðu áfram og eftir tíu mínútna leik var forskot þeirra orðið fjögur mörk á ný. Valsmenn geisluðu af sjálfstrausti meðan Haukar þurftu að hafa mikið meira fyrir hlutunum. Markvarslan var slök og sóknarleikurinn afar mistækur.
Þegar Martin Nágy varði vítakast Stefáns Rafns, 15 mínútum fyrir leikslok er Haukar voru fjórum mörkum undir, 26:22, má segja að öll vötn hafi fallið til Dýrafjarðar. Valsmenn voru með allt með sér.

Mörk Hauka: Orri Freyr Þorkelsson 8, Geir Guðmundsson 4, Darri Aronsson 4, Heimir Óli Heimisson 3, Atli Már Báruson 3, Adam Haukur Baumruk 3, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Þráinn Orri Jónsson 2.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 5, 17,2 % – Andri Sigmarsson Scheving 2, 25%.
Mörk Vals: Anton Rúnarsson 10, Agnar Smári Jónsson 7, Vignir Stefánsson 7, Róbert Aron Hostert 3, Finnur Ingi Stefánsson 3, Magnús Óli Magnússon 2, Þorgils Jón Svölu-Baldursson 2.
Varin skot: Martin Nágy 12, 34,3% – Einar Baldvin Baldvinsson 1, 14,3%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -