- Auglýsing -
- Auglýsing -

Var skipað að léttast

Camilla Herrem á fullri ferð í kappleik á HM fyrir ári síðan. Mynd/EPA
- Auglýsing -


Norska landsliðskonan og handknattleikskonan Camilla Herem segir frá því í nýrri bók sinni að henni og fleiri leikmönnum rúmenska liðsins Baia Mare hafi verið skipað léttast þegar hún gekk til liðs við það sumarið 2014.
„Mér var skipað að léttast um þrjú kíló. Mér brá og þótti þetta óviðurkvæmilegt enda ekkert rökstutt. Einum liðsfélaga mínum var gert að léttast um 12 kíló,“ segir Herem.


„Mér leist ekki á blikuna enda ólst ég upp í Noregi við að handbolti sé fyrir alla hvernig sem þeir eru í holdum, háa jafnt sem lága,“ segir Herem sem viðurkennir að árið í Rúmeníu hafi ekki verið það ánægjulegasta á ferlinum.

„Mér hugnaðist ekki að fólk á vegum félagsins gæti farið að vigta allt ofan í mig og koma í heimsókn til að skoða hvað ég væri að láta ofan í mig. Ég reyndi að slá þessu upp í grín og sjá kaldhæðnina í þessu öllu saman enda fullkomlega galið að setja svona fram og er hreinlega hættulegt.“


Án eiginmanns og hunds þeirra segist Herem aldrei hafa komist í gegnum tímabilið í Rúmeníu. Andrúmsloftið innan félagsins var ópersónulegt og t.d. lítill samgangur á milli leikmanna utan æfinga og leikja.
Herem var aðeins eitt tímabil hjá Baia Mare sem var ríkjandi meistari þegar hún kom til þess. Baia Mare tapaði fyrir CSM Bucaresti í úrslitum um meistaratitilinn vorið 2015 og féll úr leik í undanúrslitum Meistaradeildar sama vorið.


Herem flutti til Danmerkur sumarið 2015 og lék eitt ár með Team Tvis Holstebro áður en hún fór aftur í austurveg og var eitt tímabil með Vardar í Norður-Makedóníu. Hún segir dvölina þar hafa verið betri en hjá Baia Mare og engin krafa gerð um að leikmenn léttust. Frá 2017 hefur Herem leikið með Sola í heimalandi sínu hvar hún unir hag sínum vel ásamt eiginmanni, Stefan Stegevik handknattleiksmanni, og syni þeirra Theo, sem er kominn inn á þriðja ár.


Herem, sem er 34 ára gömul, hefur verið ein skærasta stjarna norsks handknattleiks um árabil. Hún hefur leikið með landsliðinu í 14 ár og unnið allt sem hægt er vinna með landsliðinu í þeim 250 landsleikjum sem hún á að baki. Einnig hefur hún í tvígang verið valin besti vinstri hornamaður á heims,- og Evrópumeistaramótum, valin í úrvalslið Meistaradeildar svo fátt eitt sé nefnt.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -