- Auglýsing -

Varð að draga sig út úr landsliðhópnum vegna meiðsla

Elísa Elíasdóttir með boltann í landsleiknum við Tyrki í síðasta mánuði í undankeppni EM. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Einn leikmaður varð að draga sig út úr landsliðshópnum í handknattleik sem nú býr sig undir viðureignir við Svía og Serba í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik. Línukonan efnilega úr Vestmannaeyjum, Elísa Elíasdóttir, er meidd og verður þar af leiðandi ekki með í leikjunum tveimur.


Fyrri leikurinn verður við Svía á Ásvöllum á miðvikudaginn. Hefst hann klukkan 19.45 og verður frítt inn í boði Icelandair.


Arnar Pétursson staðfesti við handbolta.is að Elísa hafi því miður orðið að draga sig út úr hópnum vegna meiðsla í kálfa. Elísa lék með ÍBV gegn Fram í lokaumferð Olísdeildar á fimmtudaginn. Því miður þá tóku sig upp meiðsli sem útiloka þátttöku hennar í leikjunum að þessu sinni.


Átján leikmenn voru valdir til æfinga fyrir leikina tvo. Standa nú 17 eftir. Arnar sagðist ekki ætla að kalla inn í leikmann í stað Elísu. Alltént ekki fyrir leikinn við Svía en í honum taka þátt 16 leikmenn. Burt séð frá Elísu eru tveir línumenn í hópnum, Hildigunnur Einarsdóttir, Val, og Framarinn Steinunn Björnsdóttir.


Síðari leikurinn verður ytra við Serba á laugardaginn. Verður það úrslitaleikur um hvort það verður Ísland eða Serbía sem kemst í lokakeppni Evrópumótsins. Svíar eru í efsta sæti riðilsins en Serbía og Ísland keppast um hitt sætið sem veitir þátttökurétt í lokakeppninni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -