- Auglýsing -
- Auglýsing -

Varik tryggði KA annað stigið í Kórnum

Ott Varik, KA, jafnaði metin í Kórnum úr vítakasti. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Ott Varik tryggði KA annað stigið í heimsókn til HK í Kórinn í Kópavogi í kvöld, 29:29, í viðureign liðanna í þriðju umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Varik skorað markið úr umdeildu vítakasti sem dæmt var á Pálma Fannar Sigurðsson sem hafði brotið af sér í viðskiptum við Ragnar Snæ Njálsson á síðustu sekúndu. Nokkrum sekúndum áður hafði Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha komið HK yfir, 29:28.

8 – 0

Ekki voru allir á eitt sáttir með vítakastdóminn í lokin sem var sá áttundi er féll í skaut KA-liðsins á sama tíma og HK-ingar fengu ekkert vítakast í leiknum og virtust vera óravegu frá að eitt félli þeim í skaut.

Síðustu mínútur leiksins voru æsilega spennandi og var jafnt á öllum tölum. Þess vegna var jafntefli e.t.v. rökrétt úrslit þótt sannarlega væri annað liðið glaðara með stigið en hitt.

KA er án taps

KA er þar með án taps eftir þrjá leiki og með fjögur stig í pokahorninu. HK er með þrjú stig og með jafn mörg mörk skoruð og á sig fengin.

HK var sterkara í fyrri hálfleik og hefði með meiri nákvæmni í sóknarleiknum átt að vera með þriggja til fjögurra marka forystu að hálfleiknum loknum í stað eins marks. Í stöðunni 13:10 fóru leikmenn illa að ráði sínu. HK var aðeins marki yfir, 16:15, í hálfleik.

Forskotið rann úr greipum

Snemma í síðari hálfleik náði HK fjögurra marka forskoti, 21:17. Aftur töpuðu leikmenn þræðinum og KA-liðið sem varla verður sagt að hafi leiki vel jafnaði metin og komst yfir, 22:21. Leikurinn var í járnum það sem eftir var til leiksloka.

Staðan og leikjadagskrá Olísdeilda.

Mörk HK: Kristófer Ísak Bárðarsonm 6, Hjörtur Ingi Halldórsson 6, Kristján Pétur Barðason 5, Kristján Ottó Hjálmsson 3, Aron Gauti Óskarsson 2, Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha 2, Ari Sverrir Magnússon 1, Pálmi Fannar Sigurðsson 1, Kári Tómas Hauksson 1, Jón Karl Einarsson 1.
Varin skot: Sigurjón Guðmundsson 11/2, 30,6% – Róbert Örn Karlsson 0.
Mörk KA: Ott Varik 7/2, Einar Rafn Eiðsson 7/4, Jóhann Geir Sævarsson 5, Einar Birgir Stefánsson 4, Dagur Árni Heimisson 2, Skarphéðinn Ívar Einarsson 1, Patrekur Stefánsson 1, Magnús Dagur Jónatansson 1, Arnór Ísak Haddsson 1.
Varin skot: Nicolai Horntvedt Kristensen 6, 30% – Bruno Bernat 2, 12,5%.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í Kórnum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -