- Auglýsing -
- Auglýsing -

Veðjar á landsbyggðaslag í úrslitum

KA/Þór fagnar sigri í Coca Cola-bikarnum 2021. Kemst liðið í úrslit þriðja árið í röð? Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Sigurjón Friðbjörn Björnsson, fyrrverandi þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar og einn umsjónarmanna hlaðvarpsþáttarins Leikhléið, veðjar á landsbyggðarslag í úrslitum Coca Cola-bikars kvenna í handknattleik á laugardaginn.

Undanúrslitaleikirnir fara fram í kvöld á Ásvöllum. Sigurjón Friðbjörn telur að röðin sé komin að KA/Þór að vinna Fram í undanúrslitum eftir tvo nauma tapleiki fyrir Fram í Olísdeildinni á keppnistímabilinu. Einnig er það mat Sigurjóns Friðbjörns að ÍBV-liðið leiki svo vel um þessar mundir að það vinni Val í hinni viðureign undanúrslitanna þótt Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals eigi alltaf ása upp í erminni þegar kemur að úrslitaleikjum.


„Viðureign Fram og KA/Þórs á eftir að verða skemmtileg eins og fyrri leikir liðanna í vetur. KA/Þór hefur sótt mjög í sig veðrið eftir áramótin eftir slaka leiki fyrir jólafríið. Liðið leikur orðið hörku handbolta með Rut Arnfjörð Jónsdóttur í toppstandi.

Sakna Ragnheiðar

Framarar hafa siglt jafnt og þétt í gegnum tímabilið. Liðið er í efsta sæti Olísdeildarinnar og hefur verið frá upphafi en það saknar Ragnheiðar Júlíusdóttur um þessar mundir. Það sást til dæmis í leiknum við Val í síðustu viku.


Eftir tvo nauma tapleiki þá held ég að röðin sé komið að KA/Þórsliðinu að taka leik. Ég ætla að gerast svo djarfur að spá KA/Þór tveggja marka sigri, 25:23,“ sagði Sigurjón Friðbjörn.

Meiri agi í uppstilltum leik

„Bæði lið leggja áherslu á öflugan varnarleik, góða markvörslu og hraðaupphlaup. Mér finnst hinsvegar KA/Þórsliðið leika agaðri uppstilltan sóknarleik en Framliðið gerir. Svo er KA/Þór með Rut sem er í fantaformi. Hún getur gert út um leikinn ef sá gállinn er á henni,“ sagði Sigurjón Friðbjörn ennfremur.

Leikur liða best

„ÍBV-liðið hefur verið á milli siglingu frá áramótum. Að mínu mati leikið liða best. Á sama tíma hefur Valsliðið verið að skríða til baka eftir frekar slaka leiki eftir áramótin. Hinsvegar má ekki vanmeta Valsliðið þegar kemur að úrslitaleikjum. Það er engu líkara en Gústi eigi alltaf ása uppi í erminni þegar kemur að stórum leikjum,“ sagði Sigurjón Friðbjörn.


Innbyrðisleikir Vals og ÍBV í Olísdeildinni hafa ekki verið jafnir. Valur vann heimaleikinn í haust með 13 marka mun en tapaði í Vestmannaeyjum með níu marka mun. Sigurjón Friðbjörn telur að annað verði upp á teningnum á Ásvöllum í kvöld.

Stál í stál en ÍBV vinnur

„Ég reikna með að viðureignin í kvöld verði ólík deildarleikjunum. Það verður stál í stál en ÍBV vinnur, einfaldlega vegna þess að liðið hefur leikið betri handknattleik upp á síðkastið. Stöðugleikinn hefur verið meiri hjá ÍBV. Ég leyfi mér að skjóta á þriggja marka sigur, 28:25, fyrir ÍBV,“ sagði Sigurjón Friðbjörn Björnsson léttur í bragði að vanda þegar handbolti.is fékk hann til þess að spá í spilin.


Undanúrslitaleikur KA/Þór og Fram hefst klukkan 18 á Ásvöllum í Hafnarfirði og viðureign Vals og ÍBV klukkan 20.15 á sama stað. Miðasala á leikina er á appinu Stubbur.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -