- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verðskulduðum að fá meira út úr leiknum

Eva Björk Davíðsdóttir, Stjörnunni, er markahæst í Olísdeild kvenna þegar keppni er nær því hálfnuð. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Okkur finnst við verðskulda meira úr þessum leik en raun ber vitni um. Fram að þessum leik höfum við stundum leikið þannig að við höfum ekki verðskuldað neitt þegar upp var staðið. Að þessu sinni áttum við á hinn bóginn skilið að fá eitthvað meira en ekkert,“ sagði Eva Björk Davíðsdóttir, leikmaður Stjörnunnar, og var skiljanlega vonsvikin eftir naumt tap fyrir Fram, 26:25, í Olísdeild kvenna í TM-höllinni í gærkvöld.


Stjarnan var síst lakara liðið í leiknum en vantaði herslumun upp á að vinna að minnsta kosti annað stigið. Liðið var m.a. þremur mörkum yfir, 21:18, þegar innan við tíu mínútur voru til leiksloka. Eva Björk sagði að ekki mætti hengja haus yfir þessu heldur herða upp hugann, taka það jákvæða úr þessum leik með í komandi vikur.

Eitthvað til að byggja ofan á

„Við verðum að byggja á þessum leikjum í framhaldinu. Eins og við lékum í kvöld þá er það eitthvað í líkingu við það sem við viljum leika auk þessa anda og samheldni sem við sýndum innan vallar sem utan, jafnt í vörn sem sókn. Það er ekkert annað í stöðunni en halda áfram á þessari braut þótt tapið svíði mjög,“ sagði Eva Björk ennfremur.


Stjarnan hefur aðeins unnið sér inn fjögur stig í fyrstu átta leikjum tímabilsins sem er langt undir vonum. Eva Björk viðurkennir að niðurstaðan til þessa sé vonbrigði. „Róðurinn er þungur en það er nóg eftir af tímabilinu. Þótt erfitt sé að sætta sig við stöðuna þá snýst allt um að toppa á réttum tíma og það getum við.“


Hálfur mánuður er þangað til Stjarnan leikur á ný í Olísdeildinni en hlé verður nú gert vegna landsleikja. „Við nýtum tímann framundan til að styrkja okkur mæta enn öflugri til leiks,“ sagði Eva Björk Davíðsdóttir, leikmaður Stjörnunnar í samtali við handbolta.is TM-höllinni í Garðabæ í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -