- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verðum að auka hraðann og draga úr spennu

Sigvaldi Björn Guðjónsson á auðum sjó í leiknum við Marokkó á HM. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Frakkar eru með alveg geggjað lið og fjölmarga klassa leikmenn, fleiri en einn í hverri stöðu,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson, landsliðsmaður í handknattleik, þegar handbolti.is hitti hann stuttlega að máli á hóteli íslenska landsliðsins á Giza-sléttunni nærri píramídunum í dag. Framundan er leikur hjá íslenska landsliðinu gegn franska landsliðinu í annarri umferð millriðlakeppni heimsmeistaramótsins á morgun klukkan 17.


„Leikurinn verður hörkuverkefni fyrir okkur. Frakkar hafa ef til vill ekki náð sér fullkomlega á strik ennþá á mótinu þótt þeir hafi ekki tapað leik til þessa. Kannski er einhver möguleiki hjá okkur til að taka af þeim stig. Til þess verðum við að hitta á toppdag,“ sagði Sigvaldi Björn.


Spurður hverjir væri styrkleikar franska landsliðsins sagði Sigvaldi að styrkleikinn lægi meðal annars í frábærum varnarleik. Til þess að opna hann verður íslenska landsliðið að gera betur en það hefur gert fram til þessa á mótinu, að minnsta kosti við að nýta þau færi sem gefast.

Okkar vandi liggur í sókninni

„Frakkar eiga einnig mjög góðar skyttur og frábæra hornamenn auk línumanna.
Okkar vandamál liggur hinsvegar í sóknarleiknum þar sem við verðum að bæta okkur verulega, um einhver prósent að minnsta kosti. Það hefur vantað meira flæði í leik okkar og að við leikum betur saman sem lið en ekki sem einstaklingar. Ég skil ekki af hverju við höfum verið svona hikandi.

Framundan eru tveir leikir við Frakkland og Noreg þar sem við erum fyrirfram taldir vera með veikara liðið. Úr því hlutverki verðum við að vinna,“ sagði Sigvaldi Björn og nefnir meðal annars hraðaupphlaupin sem ekki hafa skilað sér í samræmi við frábæran varnarleik liðsins á mótinu.

„Ef við ætlum að eiga möguleika gegn sterkari liðum mótsins þá verðum við að auka hraðann í sóknarleiknum og fjölga hraðaupphlaupunum og keyra á fullri ferð,“ sagði Sigvaldi Björn.

Of mörg mistök

Spurður hvort hann hefði skýringar á þeim fjölda opinni góðra marktækifæra sem farið hafa í súginn hjá íslenska liðinu í mótinu svaraði Sigvaldi því til að kannski væri skýringarinnar að leita í spennu í mönnum. „Mörg af þeim færum sem við fengum í gær gegn Sviss og eins í leiknum við Portúgal eru hundrað prósent færi. Einnig höfum við gert of marga tæknifeila. Þetta tvennt getur bent til þess að það sé spenna í okkur. Við verðum að losa okkur við hana.


Hæfileikana vantar ekki í sóknarmenn okkar en við verðum að slaka betur á og leika okkar leik,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is á Giza-sléttunni í blíðviðrinu í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -