- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verðum að hitta á okkar allra besta dag

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Við gerum okkur grein fyrir því að framundan er leikur við sterkan andstæðing, lið sem stendur okkur framar í dag,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari kvennalandsliðsins í handknattleik, í samtali við handbolta.is en á morgun mætir íslenska landsliðið Slóvenum í Ljubljana í umspili um sæti á HM sem fram fer á Spáni í desember.


„Til þess að nýta þá von sem við eigum verðum við að hitta á okkar allra besta dag. Það á við um alla leikmenn og þjálfarana einnig,“ sagði Arnar. Hann benti sérstaklega á að varnarleikurinn verði að smella saman frá byrjun. Leikmenn Slóvena eru hærri og sterkari og eru frá reyndari liðum. Sem dæmi þá leika 12 leikmenn slóvenska landsliðsins með félagsliðum sem tóku þátt í Meistaradeild kvenna í vetur. Bestu félagslið Evrópu eru þátttakendur í Meistaradeildinni.

Sú markahæsta í Meistaradeild

„Takturinn í vörninni verður að vera góður til þess að við eigum möguleika á að klukka Slóvenana. Þeir hafa á að skipa miklum skyttum, þar á meðal er Ana Gros sem er markahæst í Meistaradeildinni. Fleiri mjög öflugir leikmenn eru innnan liðsins og ljóst er að við verðum að ná góðri tengingu í varnarleiknum, hvort sem við leikum 5/1 vörn eða 6/0,“ sagði Arnar og bætir við.


„Það þýðir ekkert fyrir okkur að standa aftur á línunni og treysta á blokkina. Við verðum að koma framar á völlinn í varnarleiknum. Að því höfum verið að leggja drög að síðustu daga. Nú kemur í ljós hvernig til tekst.“

Vilja úrslitaleik heima

Arnar segir markmiðið vera að fara með þannig úrslit úr fyrri leiknum á morgun að möguleiki verði fyrir hendi að leika úrslitaleik þegar kemur að síðari viðureigninni í Schenkerhöllinni á Ásvöllum að kvöldi síðasta vetrardags.

Mikilvægur tími

Landsliðið hefur á undanförnum þremur mánuðum fengið mikinn tíma saman til æfinga. Fyrst var æfingavika í febrúar. Aftur æfði landsliðið saman í um viku fyrir leikina í forkeppni HM í mars og hefur síðan fyrir páska æft saman einu sinni á dag með undanþágu frá heilbrigðisyfirvöldum. Arnar segir að loksins, eftir nærri tvö ár í starfi, hafi gefist góður tími til æfinga. Hann hafi kynnst leikmönnum og náð að koma sínum hugmyndum á framfæri og í framkvæmd.

Þarf að marka stefnu

„Við erum að vinna að ákveðnum hlutum saman. Þar af leiðandi hefur þessi tími nýst okkur mjög vel. Hvað gerist í leikjunum við Slóvena kemur í ljós. Að þeim loknum verðum við að taka stöðuna og marka okkur skýra stefnu til framtíðar,“ sagði Arnar Pétursson, þjálfari kvennalandsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is.

Ársþing HSÍ, sem fram fór á mánudaginn, ákvað að fela stjórn HSÍ að skipa nefnd til að móta stefnu til framtíðar fyrir kvennahandboltann á Íslandi. 

Leikur Slóveníu og Íslands hefst klukkan 15.30 á morgun og verður í beinni útsendingu RÚV.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -