- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verður gaman að glíma við frábært færeyskt landslið

Meðal stærstu frétta ársins af vettvangi handknattleiksins hér heima á árinu var ráðning Snorra Steins Guðjónssonar í starf landsliðsþjálfara. Um leið tók Arnór Atlason við sem aðstoðarþjálfari. Mynd/Ívar.
- Auglýsing -

„Við beinum fyrst og fremst sjónum að okkar leik um leið og við reynum að koma inn nýjum atriðum, jafnt í vörn sem sókn. Svo verður gaman að sjá hvernig gengur í leikjum gegn skemmtilegum andstæðingi,“ sagði Arnór Atlason aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í handknattelik í samtali við handbolta.is fyrir æfingu landsliðsins í Víkinni skömmu fyrir hádegið í dag.

Landsliðið hefur æft saman síðan á mánudaginn en framundan eru vináttuleikir við færeyska landsliðið í Laugardalshöll annað kvöld og á laugardaginn. Leikirnir verða sýndir í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans.

Miðasala á leikina er hér.

Engu kollvarpað

„Við kollvörpum engu á fáeinum æfingum enda er ekki tími til þess ef við ætluðum að fara út í það. Fyrst og fremst verður um að ræða fínstillingar í varnar- og sóknarleiknum. Eitt er að gera breytingar og framkvæma þær á æfingum, annað er að sjá hlutina gerast í leik,“ sagði Arnór sem kom inn sem hægri hönd Snorra Steins Guðjónssonar þegar sá síðarnefndi var ráðinn landsliðsþjálfari um mitt þetta ár. Leikirnir við Færeyinga eru þeir fyrstu eftir að Snorri tók við og þeir einu hjá landsliðinu fyrir Evrópumótið.

Leikirnir verða sýndir í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans klukkan 19.30 á morgun föstudag og á laugardaginn klukkan 17.30.

Flott landslið Færeyinga

Arnór segir færeyska landsliðið vera mjög skemmtilegt með nokkrum frábærum handknattleiksmönnum.

„Það er eiginlega með ólíkindum hvað þeir eiga marga öfluga leikmenn. Uppistaða landsliðsins eru leikmenn úr 21 árs landsliðinu sem gerði það mjög gott á heimsmeistaramóti í sumar og eins leikmenn úr 18 ára landsliðinu sem einnig náði mjög frábærum árangri. Ég veit að það verður gaman fyrir okkur Íslendinga að sjá þetta flotta landslið sem Færeyingar hafa á að skipa og er á leiðinni á EM í janúar eins og við,“ sagði Arnór.

Kraftmikill leikur Færeyinga

„Ég veit að þetta verða skemmtilegir leikir. Færeyingar leika af miklum krafti með miklum árásum á vörn andstæðinganna frá Elias Ellefsen á Skipagøtu og Óla Mittún. Hugsanlega leika þeir aðeins öðruvísi handknattleik en við eigum að venjast en það er mjög gaman að sjá færeyska liðið leika af sínum mikla krafti.

Fyrir utan það er alltaf gaman að spila landsleiki á heimavelli. Þeir eru ekki svo margir,“ sagði Arnór Atlason sem vonast eftir fullri höll af áhorfendum annað kvöld og á laugardaginn.

Fyrri landsleikurinn hefst klukkan 19.30 annað kvöld í Laugardalshöll og sá síðari klukkan 17.30 á laugardaginn á sama stað. Leikjunum verður ennfremur sjónvarpað í allra bestu gæðum á aðalrás Símans.

Miðasala á leikina er hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -