- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verður lykilatriði að sprengja upp hraðann

Snorri Steinn Guðjónsson fyrrverandi þjálfari Vals. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals segir að töluverður munur sé á leik þýsku liðanna Flensburg og Göppingen. Valur mætti Flensburg í riðlakeppni Evrópudeildarinnar fyrr á tímabilinu en tekur á móti liði Göppingen í 16-liða úrslitum keppninnar í Origohöllinni annað kvöld, þriðjudag. Flautað verður til leiks klukkan 19.45. Enn eru fáanlegir aðgöngumiðar á Tix.is og er hlekkur á miðasöluna neðar í þessari grein.

Þyngri leikstill en hjá Flensburg

„Flensburg er mun skandinavískara lið þegar litið er til spilamennskunnar enda lengi verið með margra Norðurlandabúa innan sinna raða. Göppingen leikur þýskari handknattleik en Flensburg. Bragurinn á Göppingen er svolítið þyngri en á Flensburg.

Göppingen er mikið varnarlið. Til marks um það þá fékk liðið á sig næst fæst mörk allra liða í riðlakeppninni,“ sagði Snorri Steinn hefur legið yfir upptökum af leikjum Göppingen síðustu daga og vikur. Síðast á laugardaginn lék Göppingen við Flensburg í þýsku 1. deildinni og gerði jafntefli, 27:27.

Miðasalan á leikinn á Tix.is.

Í basli heimafyrir

Þrátt fyrir gott gengi í Evrópudeildinni hefur árangur Göppingenliðsins ekki vera viðunandi í þýsku 1. deildinni. Í henni situr liðið í 15. sæti af 18. Í byrjun desember var þjálfaranum sagt upp og annar ráðinn í hans stað.

Verðum að sprengja upp hraðann

„Það er á hreinu að við verðum að nýta okkur hraða í leiknum til þess að standast þeim snúning. Leikmenn Göppingen eru stórir og miklu þyngri en við. Ég tel að það verði lykilatriðið á morgun að geta sprengt upp hraðann í leiknum,“ sagði Snorri Steinn sem er ekki óvanur því í leikjum Evrópudeildarinnar að vera með léttara liðið.

Hver mistök dýr í útsláttarkeppni

„Línan sem við þurfum að feta er fín. Eitt er að sprengja upp hraðann og hitt er að gera það vel. Þegar komið er í útsláttarkeppni á móti alvöru atvinnumannaliði þá eru hver mistök ennþá dýrari en venjulega. Við verðum að leika mjög vel, reyndar eins og alltaf. Í leiknum er allt undir. Sviðið er stórt, fullt hús og mikil stemning. Allt spilar inn í. Ég er hinsvegar óhræddur við aðstæðurnar og andstæðinginn. Mínir menn hafa sýnt það fram til þess að þeir njóta sín vel í leikjum eins og þessum,“ sagði Snorri Steinn

Hvaða póll verður tekinn í hæðina?

„Það verður forvitnilegt að sjá hvaða pól í hæðina Göppingenliðið tekur. Ætla leikmenn liðsins að taka slaginn með okkur og hlaupa eða munu þeir draga niður í hraðanum?

Það segir sig sjálft að við þurfum á toppleik að halda, hvernig sem leikurinn þróast. Markvarslan verður að vera góð, varnarleikurinn einnig auk þess sem áhorfendur verða að leggja sitt af mörkum. Ef þetta gengur eftir þá verð ég nokkuð brattur,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -