- Auglýsing -
- Auglýsing -

Við erum fegnir að vera á lífi

Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari og Arnór Atlason aðstoðarþjálfari fara með sveit sína til Grikklands í næsta mánuði til æfinga og leikja. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Við getum verið sammála um að við höfum hingað til ekki sýnt okkar bestu hliðar á Evrópumótinu og vorum eiginlega slegnir eftir frammistöðuna í gærkvöld gegn Ungverjum,“ sagði Arnór Atlason aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is þegar landsliðið kom til Kölnar í kvöld þar sem við taka fjórir leiki í milliriðlakeppni Evrópumótsins næstu dagana. Sá fyrsti annað kvöld gegn Alfreð Gíslasyni og lærisveinum í þýska landsliðinu.

Stirður frá upphafi

„Í fyrri hálfleik leit varnarleikurinn vel út lengst af. Sóknarleikurinn var hinsvegar stirður frá upphafi til enda. Það sem gekk vel í sókninni var leikur í yfirtölu og eins voru hraðaupphlaupin fín. Þeim fækkaði í síðari hálfleik vegna þess að það slaknaði á varnarleiknum okkar,“ sagði Arnór sem viðurkenndi að uppstilltur sóknarleikur hafi ekki verið viðunandi hjá íslenska landsliðinu á mótinu til þessa.

Verri en í tveimur fyrstu

Arnór sagði að sér væri ekki að fullu ljóst hvers vegna sóknarleikurinn væri ekki eins og stefnt var að og vonir stóðu um. Færanýting hefur verið mjög slæm. „Sóknarleikurinn í gær var verri en í fyrstu tveimur leikjunum. Okkur tekst ekki að ná nógu góðu floti á boltann, eins gengur illa að losa sig við boltann,“ sagði Arnór sem lá ásamt Snorra Steini lengi yfir leiknum við Ungverja þar sem þeir greindu leikinn.

„Við megum ekki gleyma því að þrátt fyrir að við höfum ekki leikið vel á mótinu þá erum við komnir í milliriðla. Sigur annað kvöld gjörbreytir stöðunni fyrir okkur. Við erum fegnir að vera á lífi og vera komnir í milliriðil. Nú verðum við hala inn stig í keppninni,“ sagði Arnór Atlason aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í samtali við handbolta.is í Köln í kvöld.

Lengra hljóðritað viðtal við Arnór er að finna hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -