- Auglýsing -
- Auglýsing -

Við erum flottur hópur

Karen Ösp Guðbjartsdóttir, markvörður ÍR. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Það er hreinlega frábært að fólk hafi risið upp og ákveðið að ÍR héldi áfram að senda meistaraflokk kvenna til keppni á Íslandsmótinu. Án þessa fólks værum við varla að taka þátt í deildinni,“ sagði Karen Ösp Guðbjartsdóttir, markvörður ÍR-liðsins sem leikur í Grill 66-deild kvenna. Í fyrravor stóð til að meistaraflokki kvenna yrði lagður niður hjá ÍR. Horfið var frá því eftir að bylgja óánægju reis í Breiðholti og víða.

Karen Ösp og félagar hafa þakkað fyrir sig með góðri frammistöðu í Grill 66-deildinni. Um þessar mundir er ÍR-liðið í fimmta sæti deildarinnar eftir sex sigurleiki og fjögur töp.

„Það er frábært að geta glatt fólk með góðri spilamennsku og árangri,“ sagði Karen Ösp þegar handbolti.is hitti hana að máli eftir sigurleik ÍR á Víkingi í Austurbergi á miðvikudagskvöld.

Allt alvöru stelpur

„Við höfum líka sýnt fram á hversu röng sú ákvörðun var að ætla sér að leggja liðið niður. Það eru allt alvöru stelpur í ÍR-liðinu sem hafa metnað til þess að ná árangri. Við höfum sýnt að við eigum fullt erindi í deildina. Sigurinn í kvöld var sá fimmti í röð, og sjötti í deildinni. Við erum á góðri siglingu og höldum því vonandi áfram. Þetta er rosalega gaman.“

Karen Ösp er ein af uppöldum ÍR-ingum í liðinu. Hún hóf ung að æfa handbolta með félaginu. Skrapp yfir í Fram í tvö ár en sneri aftur heim. Karen Ösp hefur staðið sig vel í markinu og verið með yfir 40% hlutfallsmarkvörslu í leikjum liðsins og stundum meira. Hún var ekki með á síðasta vetri.

Hef komið sjálfri mér á óvart

„Í sannleika sagt þá hef ég komið sjálfri mér á óvart í vetur. Mér hefur gengið betur en ég gerði mér vonir um. Kannski er það vegna þess að ég mætti alveg hafa meiri trú á sjálfri mér en ég hef stundum. Galdurinn er bara að slaka aðeins og ekki svekkja sig of mikið á því sem heppnast ekki heldur horfa á það sem vel gengur. Maður á bara njóta þess að spila. Þá gengur best,“ sagði Karen Ösp og bætir við.

Höfum mikinn metnað

„Ég fann gleðina í handboltanum á nýjan leik og ákvað að hella mér að fullu út í boltann aftur fyrir þetta tímabil. Ég er ógeðslega glöð að vera kominn á fulla ferð með stelpunum. Við æfum vel, höfum mikinn metnað. Aldursdreifingin er góð. Við erum góðar vinkonur og gætum þess að hittast reglulega fyrir utan æfingar og gera eitthvað saman. Við erum flottur hópur.

Helsta markmið okkar er að hafa gaman að samverunni. Ég veit að það er klisja en engu að síður er það staðreynd að um leið og maður hefur gaman af því sem maður fæst við og er tilbúin að gefa af sér þá koma úrslitin. Meðan maður hugsar bara um að vinna en gleymir gleðinni og þá getur fljótt hallað undan fæti ef illa gengur,“ segir Karen Ösp Guðbjartsdóttir, markvörður ÍR.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -