- Auglýsing -
- Auglýsing -

Við höfum ekki misst trú á verkefnið

Elvar Örn Jónsson leikmaður Melsungen og íslenska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Mér fannst við spila góða vörn auk þess sem Viktor Gísli var flottur í markinu. Sóknarleikurinn var góður að mörgu leyti. Þess vegna er mjög svekkjandi að hafa ekki fengið neitt út úr leiknum,“ sagði Elvar Örn Jónsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag, daginn eftir tapleikinn við Þjóðverja á EM og daginn fyrir viðureignina við Frakka.

Allir á sömu blaðsíðu

„Sóknarleikurinn var mikið betri í gær en í fyrri viðureignum okkar á mótinu. Betra flot var á boltanum. Allir voru sömu blaðsíðu. Við verðum að halda áfram á þessari braut gegn Frökkum,“ sagði Elvar Örn ennfremur en sóknarleikurinn hefur verið upp og ofan hjá íslenska liðinu á Evrópumótinu að þessu sinni.

Aron Pálmarsson og Elvar Örn Jónsson ganga af leikvelli í gærkvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Elvar Örn segir að sigur hefði veitt íslenska liðinu byr undir báða vængi. „En svona er staðan og við verðum bara að hugsa um næsta leik. Við getum ekki lengi staldrað við fortíðina.
Framundan er að búa okkur undir næstu viðureign,“ sagði Elvar Örn sem segir engan bilbug vera á leikmönnum landsliðsins þrátt fyrir að eitt og annað hafi ekki gengið upp á mótinu.

„Frakkar eru með frábært lið og víst er að leikurinn verður erfiður. Við höfum fulla trú á okkur. Í gær sýndum við hvers við erum megnugir þótt það hafi ekki skilað okkur sigri. Okkar markmið verður að vinna leikinn við Frakka, ekkert annað,“ sagði Elvar.

Ekkert vonleysi

Spurður hvort hann fyndi fyrir að vonleysi væri að gera vart við sig í íslenska hópnum sagði Elvar Örn svo alls ekki vera. „Við höfum að ýmsu að keppa ennþá, þar á meðal því marki okkar að komast í forkeppni Ólympíuleikanna. Leiðin verður aðeins erfiðari en við höfum ekki misst trú á verkefnið, síður en svo,“ sagði Elvar Örn Jónsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag.

Leikur Íslands og Frakklands í milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik karla hefst klukkan 14.30 á morgun, laugardag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -